Færsluflokkur: Sjónvarp

Viðtalið við Katrínu - án Franskrar þýðingar

Ég er ekki mikill aðdáandi þess að kvikmyndir eða viðtöl séu "over voiced".  Yfirleitt fer það mikið í taugarnar á mér.  Textun er mun þægilegri og skemmtilegri máti.

Hér má finna viðtalið við Katrínu Jakobsdóttur, hjá Frönsku sjónvarpsstöðinni France24, án Frönsku "voice over" þýðingarinnar.  Mun þægilegra til áhorfs og hlustunar.

 

 

 P.S. Til gamans má geta þess að France24 er 100% í eigu Franska ríkisins og er ætlað að koma  "Frönsku sjónarhorni, i fréttaflutningi, á framfæri í heiminum. Stöðin sendir út á Ensku, Frönsku, Spænsku og Arabísku.

Frakkar hafa lengi haft áhyggjur af "anglo-american" áhrifum í heimsfréttunum og er France24 ætlað að vera "Franskt mótvægi".

 

 


mbl.is Góðan árangur megi rekja til almennings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipmyndir frá Svíþjóð

Rakst á þetta myndband frá BBC Newsnight, þar sem farið er í heimsókn til Svíþjóðar og rætt um aðgerðir (eða aðgerðaleysi) Svía við Kórónufaraldrinum.

Rætt er við bæði vísinda- og stjórnmálamenn. 

Þetta er ekki djúp greining á ástandinu, en samt nokkuð upplýsandi. En hvernig þetta allt fer og hver verður niðurstaðan að faraldri loknum á eftir að koma í ljós.

Eins og kemur fram í myndbandinu er Svíþjóð með verulega fleiri dauðsföll/höfðatölu miðað við hin Norðurlöndin.  En ef miðað er við önnur lönd í Evrópu er niðurstaðan önnur.  En það kemur fram í þættinum að faraldurinn sé lang sterkastur í Stokkhólmi. Það er eins og í ýmsum öðrum löndum, að stærri borgirnar verði verst úti.  En eins og svo margt annað sem tengist Kórónuvírusnum, er ekki hægt að segja að neitt sé regla.

Alla vegna ekki enn þá.

 

 

 

 


Bocelli streymir á Páskadag

Það hafa margir gaman af Andrea Bocelli (ég er reyndar ekki einn af þeim, en svo margir sem ég þekki eru aðdáendur, að ég ákvað að pósta þessu hér).  Eins og margir listamenn hefur hann ákveðið að streyma tónlist sinni til áhorfenda.

Tónleikar hans verða á Páskadag, að ég held kl. 17:00 að Íslenskum tíma.

Tónleikarnir verða haldnir án áhorfenda í Duomo dómkirkjunni í Milano, en streymt beint á persónulegri YouTube rás Bocelli. Eða þá hér.

Annars hef ég rekist á svo mikið af góðu efni sem er streymt á netinu undanfarið, að ég hef langt frá því komist yfir það.

Pósta ef til vill fleiru fljótlega.

 

 

 

 


mbl.is Tónleikum Andrea Bocelli frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vakna eftir vetrarsvefn

Oft er þörf en nú er nauðsyn, það er meiri þörf fyrir skemmtileg myndbönd en nokkru sinni fyrr.

Hér er skemmtilegt myndband af birni sem er að vakna eftir vetrarsvefn.

 

 

 

 

 

En ef vilji er til að tengja þetta við ástandið í dag, má velta því fyrir sér hvort að hann sé á leið á hlutabréfamarkaði.


Dagskrárstjórar "Sambandsins" láta til sín taka

Það eru miklar umbyltingar á fjölmiðlamarkaði, ekki síst afþreyingarhluta hans. Reyndar hafa verið nær stanslausar "umhleypingar" þar svo áratugum skiptir og sér varla fyrir endann á því.

Neysla á fréttum og afþreyingu hefur breyst og þróast.

Æ færri horfa á "dagskránna", heldur hefur hver og einn stjórn fyrir sig, velur sitt efni.  Fjölskyldur horfa sjaldan eða aldrei saman á sjónvarp, heldur kýs hver og einn sinn dagsrkrárlið.

Allir eru sínir eigin dagskrárstjórar, ef svo má að orði komast.

Þetta er eftirspurnarhliðin.

Þá kemur að framboðshliðinni.

Víðast hvar er enginn skortur á þeirri hlið.  Víða um lönd eru sjónvarpsstöðvar og efnisveitur hins opinbera, sem bjóða upp á fjölbreytta dagskrá á kostnað skattgreiðenda. Margar þeirra þurfa að uppfylla skilyrði hvað varðar framboð, gjarna hvað varðar innlent efni.

Síðan eru alls kyns sjónvarpsstöðvar og efnisveitur í höndum einkaaðila sem ýmist bjóða áskrift eða selja auglýsingar, sumar hvoru tveggja.

En Evrópusambandinu er eitthvað uppsigað við frjálst samband framboðs og eftirspurnar hvað varðar fjölmiðla og vill því setja framboðinu skorður.

"Sambandið" heimtar að minnst 30% af efni allra efnisveita sem starfi innan ríkja þess sé Evrópskt.

Reyndar eins og er algengt nú orðið lætur það sér ekki nægja að stjórna innan sinnan eigin landamæra, heldur krefst þess sama af Íslandi, Noregi og Liechtenstein.

Að hluta til virðist "Sambandið" ætla sér að taka að sér að hluta til "menningarlega tilsjá" með Íslandi.

Það er eiginlega með eindæmum hvernig "fríverslunarsamningur" þar sem Íslendingar "fengu allt fyrir ekkert", eins og fullyrt var á sínum tíma, hefur leitt þjóðina á þennan stað.

Eru Íslendingar einhverju bættari og menningu þeirra á einhvern hátt hjálpað með því að Netflix (og aðrar svipaðar efnisveitur) setji inn aukinn fjölda af Búlgörskum, Eistneskum, Rúmenskum og Pólskum kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum?

Myndu Íslendingar ekki frekar vilja setja skilyrði um að t.d. ákveðið hlutfall (mun lægra en 30%) af efni yrði að vera Íslenskt, eða ákveðið hlutfall barnaefnis yrði að vera talsett á Íslensku, eða eitthvað í þá áttina?

En "kommissarnir" vilja auðvitað ráða ferðinni, og þar sem "kommissarar" hafa ráðið ferðinni hafa þeir yfirleitt verið hrifnir af "kvótum" og "kvótana" þarf að fylla.  Með góðu eða illu.

Auðvitað vilja allar streymisveitur bjóða upp á efni sem nýtur vinsælda og er mikið horft á.  Á meðal þess er og hefur alltaf verið Evrópskt efni.

En það er auðvitað misjafnt ár frá ári hve mikið það er, og með auknum fjölda efnisveita dreifist það á fleiri staði.  Því gæti það hæglega orðið svo að til að fylla "kvótann" verði gripið til þess að kaupa það ódýrasta sem býðst, því áhorfið verði hvort sem er það lítið.

Þannig eru svona inngrip oft mjög tvíeggjuð.

En vissulega mun þetta færa þó nokkuð fé til Evrópskra framleiðenda, ef til vill er það megin ástæðan.

En þetta er enn eitt dæmið um stjórnlyndið sem svo oft ræður ríkjum í "Sambandinu" og getur verið svo hvimleitt.

Ef að t.d. efnisveita sem hefði eingöngu Disneymyndir á boðstólum er ógn við Evrópska menningu er ekki mikið varið í þá menningu.

En auðvitað er það bisnesshugmynd (alveg ókeypis fyrir þá sem vilja framkvæma hana) að setja á stofn efnisveitu eingöngu með Evrópsku efni.  Ef það næðist 30% markaðshlutdeild væri hún líklega í góðum málum.

P.S. Mikið væri gaman að heyra álit þingmanna Viðreisnar á svona framkomu Evrópusambandsins.  Getur það verið að flokkur sem vill afnema  reglur um Íslensk mannanöfn (sem ég er sammála) styðji að "Sambandið" setji "kvóta" á uppruna kvikmynda og sjónvarpsþátta? 

Ristir þeirra meinta "frjálslyndi" ekki dýpra en svo?

P.S.S. Hvað gerir kvikmynd eða sjónvarpsþátt Evrópskan?  Tungumálið, fjármögnunin?  Framleiðslulandið? Hvað með samframleiðslur, og fjármögnun frá mörgum heimsálfum, m.a. Evrópu?

 

 


Gaupur líta vel í kringum sig áður en þær fara yfir götuna

Það má víða sjá villt dýr í víðáttum Kanada. Þetta er eitt það skemmtilegasta myndband sem ég hef séð lengi.

 

 


Sápuópera með 10.000 (tíu þúsund) þætti

Eins og oft áður var ég að þvælast eitthvað um netið og rakst þá á þá staðreynd að í dag (föstudag) hefði verið sýndur 10.000, þátturinn af Bresku sjónvarpsseríunn, eða "sápuóperunni" "Coronation Street".

Þó að mig reki minni til að hafa eitthvað heyrt um þessa "seríu" hef ég aldrei séð einn einasta þátt.

En fyrsti þátturinn var sýndur fyrir 60 árum síðan, 1960.

Það hlýtur að vera ákveðið afrek að hafa haldið þessu gangandi í öll þessi ár.

En það besta sem ég sá var stutt umsögn sem einhver hafði sett inn, eitthvað á þá leið að fyrstu 30. árin hefðu verið góð, en síðan hefði þetta verið allt niður á við.

En þetta gæti auðvitað verið "últimate" hámhorf. lol

 


Kostar Netflix Eurovision á Íslandi?

Ef marka má fréttir sem ég hef séð frá Íslandi, mun Netflix kosta útsendingu Eurovision á Íslandi í vor.

Flest sem ég hef heyrt sagt um málið er neikvætt í garð RUV og þessarar kostunar.  Talað er um að þetta sýni slæmt siðferði RUV, það sé óviðeigandi að Netflix kosti slíka útsedingu.

Netflix sé ógn við Íslenska fjölmiðla og menningu og því eigi RUV ekki að vera í samstarfi við slíkan aðila.

Síðan er því gjarna bætt við að Netflix greiði enga skatta á Íslandi og sé á meðal þess sem gerir Íslenskum fjölmiðlum erfitt fyrir.

Ég get vel skilið að þetta samstarf veki athygli, en ég sé ekki raunverulegar ástæður til þess að amast við því.

Það væri fyrst orðið umdeilanlegt ef RUV væri ætlað að hafna þeim sem vilja auglýsa hjá stofnuninni eða kosta dagskrárliði, eftir einhverji siðferðismati um starfsemina.

Öll fyrirtæki ættu að hafa jafnan aðgang að auglýsingum og þess háttar, svo lengi sem löglegt er að auglýsa viðkomandi vöru.

Annað gengur hreinlega ekki upp að mínu mati.

Það má hins vegar rökræða lengi um hvort að auglýsingar og kostanir eigi að vera á RUV, hvort að skylduáskrift sé rétt, hvaða markmið séu með rekstri RUV og hvort að það eigi að setja rekstri þess einhverjar skorður.

En að RUV fari að flokka auglýsendur/kostunaraðila í æskilega og óæskilega er alger fjarstæða að mínu mati.

P.S. Viðbætt hér 18. janúar.  Mér barst tölvupóstur með þeim upplýsingum að Netflix borgi að sjálfsögðu virðisaukaskatt af áskriftum á Íslandi.  Fannst rétt að það komi fram.

 

 

 


Stóra "lúðamálið" og "sósíal realísk" kvikmyndagerð

Mér fannst nokkuð gaman að lesa um "stóra lúðamálið".  Sem gömlum "landsbyggðarlúða", sem breyst hefur í "sófistíkeraðan" stórborgarmann, er mér auðvitað málið skylt og þekki það af eigin raun.  Frá báðum ef ekki fleiri hliðum.

Það er vissulega freistandi að taka upp þykkjuna fyrir "landsbyggðarlúðana", þó þykist hinn "sófistíkeraði" stórborgarbúi vita betur.

Það er nefnilega þetta með raunsæið í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.

Það vill oft fara fyrir ofan garð og neðan.

Það kann auðvitað að koma mörgum á óvart að ungt fólk í New York býr ekki eða lifir eins og sést í "Friends", allra síst ef það er atvinnulaust eða með stopula vinnu.  Það eru víst sömuleiðis býsna margir New York búar sem deila ekki lífsstíl með vinkonunum í "The Sex And The City".

Homer er ekki týpískur starfsmaður í Bandarísku kjarnorkuveri og ef við skellum okkur í sumarfrí til Torquay, þurfum við ekki að eiga von á svipuðum trakteringum og gerðust í "Fawlty Towers", þó að þeir þættir (eins og margir aðrir) séu reyndar byggðir á raunveruleikanum að hluta til.

Bandarískur lögreglumaður sem ég eyddi einu sinni smá tíma andspænis á bar, sagði mér í óspurðum að kleinuhringjaát þeirra í kvikmyndum væri ofgerð og leiðinleg steríótýpa.

Líklega eru rannsóknarlögreglumenn heldur ekki jafn einmanna, þunglyndir, drykkfelldir og fráskyldir og sýnt er í þáttum og kvikmyndum.  Alla vegna ekki þeir sem ég hef kynnst, en þeir eru reyndar það fáir að þeir teljast ekki marktækt úrtak.

Ég leyfi mér sömuleiðis að efast um að þeir félagar Ólafur Ragnar og Georg séu týpískir starfsmenn á bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Ættu stéttarfélög ef til vill að fara að huga að "ímynd" félagsmanna sinna í kvikmyndum og sjónvarpi?

Þannig er það að oft velja sögu- og kvikmyndagerðarmenn að sýna okkur frekar ýkta, en skemmtilega/áhugaverða útgáfu af raunveruleikanum.

Oft eitthvað sem þeir teljs "söluvænlegt".

Það er engin ástæða til þess að taka það of hátíðlega, persónulega hef ég engan áhuga á því að taka undir einhver áköll um "sósíal realíska" kvikmyndagerð.

Kæfum ekki kvikmyndir eða önnur skáldverk með kröfum um um að þau endurspegli raunveruleikann.

Það er ekkert að því að einhver þeirra geri það, en alls ekki nauðsyn.

 


Menningarþáttur á föstudegi: Kerli og Low Steppa

Þá er hér smá menning á föstudegi, tónlist til að ylja eyrunum. Fyrra lagið er með Eistnesku söngkonunni Kerli (borið fram Gerlý, þó að Enskumælandi segi gjarna "Curly", og Íslendingum þyki líklega liggja beinast við að láta vaða með hörðu kái og jafnvel rödduðu erri.) En lagið er splunkunýtt, heitir Savage og er electróskotið popp með Eistneskum áhrifum. Persónulega verð ég að segja að mér þykir myndbandið vel gert.

Seinna lagið er svo hamingjusamt melódískt "danshús", með Breska plötusnúðnum Low Steppa og heitir "You´re My Life". Í sjálfu sér ekki mikið meira um það að segja.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband