Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Viðtal við Kristrúnu Heimisdóttur sem hægt er að hvetja alla til að hlusta á

Ég mæli heils hugar með því við alla að hlusta á viðtal Kristjáns Kristjánssonar við Kristrúnu Heimisdóttur á Sprengisandi frá því í morgun.

Þar er fjallað um "stjórnarskrármálið" og hvernig sú umræða hefur endað á villigötum og í raun hálfgerðu öngstræti.

Þar er talað um grein sem Kristrún skrifaði í tímarit lögmanna fyrir skemmstu.  Ég hef ekki lesið greinina og ekki áskrifandi af því tímariti, þannig að ég hef ekki lesið greinina.

En viðtalið var gott og Kristrún setti fram mál sitt af skynsemi og yfirvegun.

Það er í raun ótrúlegt að enn skuli vera til stjórnmálaflokkar sem hafa það á meðal sinna helstu mála í komandi kosningum að lögfesta "nýju stjórnarskránna".

Það er eðlilegt að vara við slíkum flokkum.

En viðtalið við Kristrúnu má finna hér.

Að sjálfsögðu er eðlilegt að ræða og gera breytingar á stjórnarskránni, en kollsteypur ber að varast.


Njáll Trausti nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í NorðAusturkjördæmi

Þá er víst talningu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NorðAusturkjördæmi lokið og ljóst að Njáll Trausti er nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.

Þau úrslit eru reyndar í takt við það sem þeir sem ég enn þekki á svæðinu sögðu.  Þeir töldu næsta víst að Njáll ynni sigur, þó að það sé ekki sjálfgefið að taka við forystu, þrátt fyrir að hafa skipað annað sætið.

En eins og margir sögðu, þá er "þyngdin" í kjördæminu norðanmegin og slík lögmál verða ekki yfirunnin á fáum vikum eða mánuðum.

Njáll Trausti hefur enda verið vaxandi þingmaður.

En frétt um úrslitin má lesa islendingur.is, heimasíðu Sjálfstæðisflokksins á Akureyri.

Ekki er hægt að lesa frétt sem þessa án þess að hugurinn hvarfli að fjölmiðlastorminum sem hefur geysað vegna "skæruliðadeildar" Samherja.

Það er nefnilega ólíkt að tala um að hafa áhrif, reyna að hafa áhrif eða að hafa áhrif.

Ég veit ekki hvað mörg ár eru síðan að ég byrjaði að heyra "sögur" um að Samherji "réði öllu fyrir norðan" og engin þyrfti að láta sig dreyma um að fara í framboð þar án þess að "hljóta blessun" þeirra.

Þeir réðu.

Persónulega hef ég aldrei lagt trúnað á slíkar sögur. 

Ég geri mér fulla grein fyrir því að fyrirtæki á borð við Samherja hefur alltaf ákveðin ítök.  Það segir sig eiginlega sjálft að slík fyrirtæki, af slíkri stærðargráðu, njóta alltaf ákveðinnar athygli og velvilja frá bæði sveitastjórnarfólki sem og þingmönnum.

En ég hef ekki þurft nema að líta yfir þá einstaklinga sem hefur skipað þennan hóp til að gera mér grein fyrir því að fullyrðingar um "völd" Samherja eru orðum aukin.

Hins vegar verða alltaf til einstaklingar, sem og hópar sem reyna að koma "sínum mönnum" á framfæri.  Til þess hafa verið (og verða líklega) notuð fyrirtæki, félagasamtök, alls kyns hreyfingar og "klúbbar".

En það er engin ástæða til að missa svefn, í það minnsta ekki margar nætur í röð, yfir hópi fólks sem telur sig geta "fixað þetta og hitt".

En það er hægt að óska Njáli Trausta til hamingju með sigurinn, hann er vel að honum kominn.

 

 

 

 


Trú á að veiran gæti hafa sloppið af rannsóknarstofu í Wuhan virðist vera að styrkjast

Persónulega hef ég aldrei haft sterka trú á því að veiran hafi sloppið út af rannsóknarstofu, en ég hef svo sem aldrei haft sérstakan grunn til að segja að það gæti ekki verið.

En á undanförnum viku hef ég séð æ sterkari "undiröldu" sem krefst frekari rannsókna og telur þann möguleika þurfa frekari skoðunar við, jafnvel líklegan.

Það eru heldur ekki eingöngu einhverjir "samsæriskenningavefir", sem eru í þeim hóp.

Hér og hér má sjá nýlega umfjöllun Wall Street Journal (krefst áskriftar) um málið, Washington Post  hefur fjallað um málið og hér má sjá aðra grein af þeirri vefsíðu.

Hér má sjá umfjöllun hjá NBC, og hér frá Reuters. Meira að segja Fauci virðist ekki eins viss í sinni sök og oft áður.

Kínversk stjórnvöld neita þessu staðfastlega, rétt eins og ávallt áður og varla þarf að eiga von á mikilli samvinnu úr þeirri átt.

Ekki ætla ég að fella neinn dóm hér, en vissulega er þörf á frekari rannsóknum hvað varðar uppruna veirunnar.

En samsæriskenningar ganga auðvitað í báðar áttir, og sjálfsagt finnst einhverjum að eingöngu sé verið að reyna að koma sök á Kína.

Ólíklegt að óvefengjalegur sannleikur eigi eftir að koma í ljós, allra sist sem allir munu standa að baki.

En það er merkilegt að fylgjast með hvernig þessum kenningum skýtur upp aftur og aftur, jafnvel sterkari en áður.

Það er líka athyglivert hve "meginstraumsmiðlar" taka jákvæðara á málinu en á síðasta ári.

 


mbl.is Krefjast ítarlegri rannsóknar á upphafi faraldurs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinna, einkalíf og siðanefndir og -vandir einstaklingar

Urskurðir siðanefnda vekja alltaf athygli, en ekki nauðsynlega gleði.  Hvort að siðavandir einstaklingar sitji í siðanefndunum eru sömuleiðis skiptar skoðanir um.

En hvaða rétt hafa fyrirtæki til að skipa siðanefndir til að fjalla um athæfi starfsmanna sinna utan vinnutíma?

Fróðlegt væri að heyra álit stéttarfélaga á því.

Ég er sammála því að ýmsu leyti virðist framganga Helga á samfélagsmiðlum rýra trúverðugleika hans sem hlutlauss fréttamanns, og þá óbeint stofnunarinnar sem hann starfar fyrir.

En hvar liggja mörkin á milli vinnu og einkalífs?

Hefur vinnuveitandi rétt á því að krefjast á starfsmaður viðri skoðanir sínar hvergi opinberlega?

Má íþróttafréttaritari "halda með" félagi?

Eftir því sem mér skilst lét RÚV starfsmann sinn á Selfossi "fjúka" vegna svipaðs atviks, en ég treysti mér ekki til segja um hvort það er fyllilega sambærilegt eða ekki, þekki ekki nóg til málsins.

Kennari norður í landi, sem var rekinn fyrir að viðra í frítíma sínum, trúarskoðanir  og hvernig "heilög ritning" fjallar um samkynhneigð, var rekinn úr starfi.

En dómstólar töldu rétt hans til að að aðhafast slíkt í frítíma sínum ótvíræðan.

Kennari við háskóla var hins vegar rekinn fyrir að tjá þær skoðanir að konur væru til leiðinda og spilltu fyrir, og dómstólar töldu það lögmæta ástæðu uppsagnar.

Ég þekki ekki hvort að hann ritaði orð sín á Facebook í frítíma sínum eða í vinnunni. Þó skilst mér að um hafi verið að ræða lokaðan hóp.

Þannig að eitthvað eru málin blandin.

Hvar liggja mörkin á milli einkalífs og atvinnu?

Getur framkoma í frítíma, réttlætt atvinnumissi?

Er hægt að banna starfsmönnum að tjá skoðanir sínar?

Ef starfmaður lætur tattúvera hamar og sigð á áberandi stað, gefur það vinnuveitenda rétt til að segja honum upp, vegna þess að táknið gæti sært bæði samstarfsfélaga og viðskiptavini?

Persónulega finnst mér enginn vafi á því að Helgi Seljan hefur brotið siðareglur RUV, rétt eins og mér fannst líklegt að Þórhildur Sunna hafi brotið siðareglur Alþingis.

En hvort að siðareglurnar og siðanefndirnar eigi rétt á sér er allt annar handleggur.

Hvort að það sé lagagrunnur fyrir því að setja starfsmenn undir slíkt, utan vinnutíma, væri fróðlegt að fá úrskurð um.

Þó að í "tísku" sé að setja slíkar reglur segir það lítið til um lögmæti þeirra, það er að segja utan vinnutíma.

En framganga utan vinnutíma getur vissulega skaðað trúverðugleika t.d. fréttamanna, en ég held að engar siðareglur breyti afstöðu þar um.  Einstaklingar dæma eftir "eigin standördum".

En ef til vill segir Helgi Seljan okkur ábúðarfullur frá því næst þegar þingmaður verður sakaður um að hafa brotið siðareglur eða næst þegar háskólakennari verður rekinn fyrir að segja einhverja vitleysu á samfélagsmiðlum.

En svo gæti RUV líka haft "siðameistara" sem starfsmenn senda færslur sínar til, og fá samþykki, áður en þeir birta þær á samfélagsmiðlum.

 

 


mbl.is Siðanefnd féllst ekki á endurupptöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðlar og "sníkjulíf".

Það er mikið rætt um alls kyns miðla og svo aftur málfrelsi þessi misserin.  Það er vel enda báðir hlutirnir mikilvægir í nútíma samfélagi.

Og oftast eiga þessir hlutir samelið, góðir miðlar og málfrelsi.

Nú er býsna merkilegt mál í Ástralíu, en þar hefur Facebook ákveðið að loka fyrir þann möguleika notenda sinna að "deila" fréttum, frekar en að greiða fjölmiðlum fyrir notkunina. 

En ákvæði um slíkar greiðslur er að finna í frumvarpi sem Ástralska ríkisstjórnin beitir sér fyrir.

En megn óánægja er yfir þvía að "deilimöguleikinn" hafi verið aftengdur.

En er ekki eðlilegt að fyrirtækið velji á milli að greiða fyrir "deilingu" eða að loka möguleikanum?

Er í raun ekki aðeins um þessa tvo möguleika að ræða?

Er ekki eins og þegar Twitter lokaði á Trump, aðeins um ákvörðun einkafyrirtækisins að ræða?

Eiga notendur Facebook, sem þeir greiða ekkert fyrir, einhverj heimtingu á því að geta "deilt" fréttum?

En auðvitað er eðlilegt að fjölmiðlum sé ekki sama hvernig efni þeirra er dreift og hver dreifir því og eðlilega finnst þeim erfitt að sjá aðra selja auglýsingar út á þeirra efni.

En "sníkjulífið" er að hluta gagnkvæmt, því þeir eru orðnir ófáir dálksentrimetrarnir sem fjölmiðlar skrifa upp eftir samfélagsmiðlum, t.d. Facebook.

En það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þessu máli vindur fram og hvernig málin þróast, ekki eingöngu í Ástralíu heldur um heim allan.

En það er reyndar þarft að ræða hvernig meta eigi höfundarrétt fjölmiðla.  Það er ótrúlega algengt finnst mér t.d. á Íslenskum fjölmiðlum að þeir "endursegi" fréttir úr öðrum Íslenskum fjölmiðlum, með ótrúlega littlum breytingum.

Þannig hef ég t.d., sem er ekki áskrifandi að Morgunblaðinu, oft getað lesið nokkuð ítarlega endursögn á frétt eða grein úr Morgunblaðinu í öðrum fjölmiðlum.

Er það rökrétt?

Stundum hef ég lesið fréttir þar sem ég fæ það á tilfinninguna að sé nokkurn veginn "copy/paste" úr öðrum Íslenskum miðlum, sem hafa þó þýtt fréttina úr erlendum miðli.

Allt þetta tengist þetta vaxandi erfiðleikum fjölmiðla að afla sér tekna, t.d. með áskrifum.  Það er erfitt að "selja fréttir" ef aðrir aðilar "endursegja" þær ókeypis.

Stundum draga slíkar "endursagnir" án efa athygli að upphaflegu fréttinni en allt slíkt er erfitt að meta, sama gildir um "deilingar" á samfélagsmiðlum.

 


mbl.is Fréttabann á Facebook í Ástralíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að þola andstæðar skoðanir

Vilja til að hindra eða "útrýma" andstæðum skoðunum verður vart í vaxandi mæli nú á tímum.

Umburðarlyndi virðist víða fara þverrandi.

Starfsfólk New York Times þoldi t.d. ekki að grein hefði birst í blaðinu sem það var ósammála og þótti ekki samrýmast stefnu blaðsins að það "neyddi" ritstjóra aðsendra greina til að segja upp störfum.

Starfsfólk útgefanda J. K.  Rowling mótmælti harðlega að barnabók hennar yrði gefin út af fyrirtækinu, að því virðist vegna skoðanna sem hún hefði viðrað á samfélagsmiðlum. 

Bókin, The Ickabog, eða efni hennar virðist hafa verið aukatriði.

Kanadíski sálfræðiprófessorinn Jordan Peterson, virðist einnig hafa "strokið rangælis", starfsfólki útgáfyrirtækis síns, að það krafðist að fyrirtækið hætti við að gefa út nýjustu bók hans.

Bókin sem mun heita:  "Beyond Order: 12 More Rules for life", er reyndar ekki komin út, er væntanlega 2. mars.

Sumir segja reyndar að bók Peterson gæti ekki fengið betri auglýsingu, en alla þá sem virðast vera á móti útgáfunni, en það er líklega önnur saga.

Fjölmargir sem starfa "útgáfubransanum" hafa einnig skrifað undir ákall um að bókaútgefendur gefi ekki út endurminningar þeirra sem starfað hafa í ríkisstjórn Donalds Trump.

Að sjálfsögðu er öllum frjálst að hafa sínar skoðanir í málum sem þessum, en mér finnst merkilegt hvað margir virðast þeirra skoðuna að andstæðar skoðanir eigi helst ekki að heyrast.

Nú geri ég mér ekki grein fyrir því hvað mikill markaður er fyrir endurminningabækur þeirra sem störfuðu með Trump á síðasta kjörtímabili. Ég tel heldur ekki líklegt að ég eigi eftir að kaupa þær. 

Heilt yfir er ég ekki mikill aðdáandi sjálfskrifaðra bóka stjórnmálamanna, en af þeim hefur vissulega verið meira en nóg framboð undanfarin ár.

En ég sé ekkert að því að fyrrverandi ráðherra gefi út bækur, ef áhugi er fyrir þeim þá seljast þær.

Rétt eins og ég tel það fjölmiðlum til tekna ef þeir birta breitt svið skoðana.  Slíkum miðlum fer því miður fækkandi.

Frekar er reyndum blaðamönnum sagt upp vegna "skringilegra" atvika sem áttu sér stað fyrir einhverjum árum. Einstaklingar missa vinnu vegna "tísta" o.s.frv.

Merkilegt nokk, virðast oft í fararbroddi einstaklingar og fjölmiðlar sem kenna sig við og stæra sig af "frjálslyndi".

Umburðarlyndið virðist ekki partur af frjálslyndinu og raunar víðs fjarri.

Síðan undrast margir "pólaríseringu" og að heift hlaupi í umræðu.

En einhvern tíma var sagt að mest væri ástæða til að hafa áhyggjur þegar svo gott sem allir væru sammála.

Ef til vill er sitt hvað til í því.

 

 

 

 

 


Villandi fyrirsögn hjá mbl.is og guardian.co.uk

Fyrirsögnin á þessari frétt mbl.is er í raun frekar villandi.  Þó er í raun ekki við mbl.is að sakast, nema að því leyti að miðillinn treystir fyrirsögn Guardian um of.

VAC distrust FranceEins og segir í frétt guardian.co.uk, þá er vantraustið í garð bólusetningu mikið hærra Frakklandi, en t.d. Bandaríkjunum og Þýskalandi, þar sem þar er u.þ.b. 25%.

Vantraustið í Frakklandi er næstum 40%

"Nearly four in ten people in France, more than 25% of those in the US and 23% in Germany say they definitely or probably will not get vaccinated against Covid-19, according to a survey that underlines the challenge facing governments."

Hvers vegna Guardian kýs að gera svo lítið úr vantrausti í garð bólusetninga í Frakklandi veit ég ekki, en það er býsna mikill munur á því að vantraustið sé í kringum 25%, eins og það er í Þýskalandi og Bandaríkjunum, og svo aftur næstum 40% vantrausti í Frakklandi.

Önnur spurning er svo af hverju mbl.is kýs að "éta það hrátt" upp eftir vefsíðu Guardian og gengur jafnvel lengra og segir það ekki bara í fyrirsögn, heldur einnig í meginmáli fréttar.

Upplýsingaóreiðina má líklega finna víða.

Hvers vegna tortryggni í garð yfirvalda og bóluefna er svo mikið sterkari í Frakklandi en í öðrum löndum, er síðan verðugt rannsóknarefni.

En sagan er þar líklega vísbending, eins og oft áður.

 

 


mbl.is 25% munu líklega ekki þiggja bólusetningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar liggja mörk tjáningarfrelsisins?

Hver má tjá sig, hvernig má hann tjá sig, hvar má hann tjá sig, hver getur bannað tjáningu og hvar liggja mörk tjáningarfrelsisins?

Það hefur mátt heyra ýmsar spurningar í þesa átt undanfarna daga.

Ekki síst frá Bandaríkjunum, en þetta er þó spurning sem varðar allan heiminn og spurningar sem þsssar vakna reglulega um heim allan.

Le Monde Cartoon penguin incestSlíkar spurningar hafa nú sem áður vaknað í Frakklandi, og ef til vill kemur það ekki á óvart, að nú sem stundum áður vakna spurningar í tengslum við skopmynd/ir.

Fyrir nokkrum dögum baðst ritstjóri Le Monde afsökunar á því að hafa birt skopmynd, þar sem er gert grín að sifjaspelli.

Þó að Franskan mín sé ekki upp á mörg tonn af  fiski, telst mér til að texti skopmyndarinnar sem ég birti hér til hliðar sé á þessa leið, í minni eigin þýðingu, þar sem mörgæsarungi spyr fullorðna mörgæs, eftirfarandi spurningar:

"Ég var misnot/uð/aður af ættleiddum hálfbróður maka trans föður míns sem nú er mamma mín, er það sifjaspell?".

Ritstjóri Le Monde baðst afsökunar á birtingu skopmyndarinnar, en eftir því sem ég kemst næst má enn finna myndina á vef blaðsins.

Teiknarinn, Xavier Gorce, brást hins vegar illa við afsökunarbeiðninni, sagði upp samningi sínum við blaðið og lét hafa eftir sér "að frelsið væri ekki umsemjanlegt".

Þetta er örlítið skrýtið mál að mínu mati. Birting var ekki dregin til baka.  Beðist var afsökunar á innihaldinu.

En teiknaranum þótti gengið gegn frelsi sínu með afsökunarbeiðninni og sagði upp.

Hann birti síðastu skopmynd sína hjá Le Monde, þar voru tvær fullorðnar mörgæsir og sagði önnur þeirra við hina: "Ertu með heilbrigðisvottorð fyrir húmornum þinum?"

Það er gott að tjáningarfrelsið sé í umræðunni, það er þarft og gott.

Líklega sýnist sitt hverjum, í þessu máli sem mörgum öðrum.

P.S. Byggt að hluta af þessari umfjöllun.


Höldum RUV á auglýsingamarkaði - Fréttatíminn er aldrei ókeypis

Það hefur vakið mikla athygli að Stöð2 hafi ákveðið að "læsa" fréttatíma sínum. 

Að sumu leyti er það þróun sem hefur mátt sjá víða um lönd, þannig að fréttamiðlar, t.d. á netinu, hafa í auknum mæli farið að læsa síðum sínum nema fyrir þeim sem eru reiðubúnir til að greiða áskriftargjald.

Fréttirnar eru auðvitað aldrei ókeypis, það er bara spurning um hvernig borgað er fyrir þær.

En eðlilega hefur umræðan á Íslandi ekki síst snúist um hvernig aðrir miðlar geti keppt við Ríkisútvarpið, hvort að ekki sé rétt að taka það af auglýsingamarkaði og hvernig eigi að bæta Ríkisútvarpinu það upp.

Persónulega tel ég slíka umræðu á algerum villigötum. 

Ef Ríkisútvarpið hefur t.d. 20% hlutdeild á Sjón/útvarpsmarkaði, þá hefur það lítið upp á sig að taka það af auglýsingamarkaði, ef aðrar tekjur gera því kleyft að halda markaðshlutdeild sinni.

Það þýðir einfaldlega að 20% af neytendum á sjón/útvarpsmarkaði eru teknir af markaði og auglýsendur þurfa að finna aðrar leiðir til að ná til þeirra.  Auglýsingar í öðrum miðlum á Íslenskum sjón/útvarpsmarkaði eru ólíklegar til að þjóna því hlutverki. 

Líklega er þá vænlegra að leita til annara miðla, s.s. FaceBook, sem hefur mikla útbreiðslu á Íslandi.

Persónulega finnst mér rökréttara að halda Ríkisúvarpinu á auglýsingamarkaði en fella niður útvarpsgjaldið og allan stuðning hins opinbera.

Ef ríkið vill vera á samkeppnismarkaði þá á ríkið einfaldlega að vera á samkeppnismarkaði - án allrar forgjafar.

Stjórn ríkisútvarpsins getur svo ákveðið hvort að þeir vilji vera áskriftarmiðill eða fara aðrar leiðir.

Ríkisrekstur finnst einnig á öðrum samkeppnismörkuðum, t.d. bankamarkaði.

Myndu Íslendingar vilja að allir Íslendingar yrðu skyldaðar til að leggja 20% af launum sínum inn á reiking í ríkisbanka? 

Eða vera skyldaðir til að leggja 40% af öllum sparnaði sínum inn í ríkisbanka?  Burtséð frá þeim kjörum sem bjóðast?

Þætti Íslendingum eðlilegt að vera skyldaðir til að að í það minnsta 30% af skuldum þeirra yrði að vera í ríkisbanka, burtséð frá þeim kjörum sem ríkisbankar bjóða?

Líklega ekki.

En Íslendingar treysta einstaklingum og fyrirtækjum til þess að velja sér þær fjármálastofnanir sem henta þeim eða bjóða best.

Ef ríkið vill eiga banka á samkeppnismarkaði er eðlilegt að hann lúti og um hann/þá gildi sömu reglur og viðmið og aðra banka á þeim markaði.

Er ekki rétt að slíkt gildi einnig um fjölmiðla?

Stundum er talað um að "þrígreiningu" valdsins og þar þurfi að vera aðgreining.

Persónulega finnst mér sú aðgreining á Íslandi oft á tíðum vera umdeilanleg.

En það er ekki síður þörf á því að kljúfa "fjórða valdið" frá ríkisvaldinu.

 

 

 

 


mbl.is „Engin hagræðing“ í Efstaleiti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ritskoðun nútímans?

Það er býsna mikið rætt um "ritskoðun" þessa dagana.  Þó held ég að það sé ekki alveg rétta orðið til að nota.

Ef til væri réttara að tala um "birtingarvald", nú eða eins og í fréttinni sem þessi færsla er hengd við, "dreifingarvald".

Sé slíku valdi beitt, er það líklega í sumum tilfellum allt að ígildi "ritskoðunar", en ég myndi þó telja það annars eðlis.

En auðvitað er fjölmiðlum ritstýrt og margir hafa kvartað undan skorti á "ritstýringu" eða eftirliti á samfélagsmiðlum.

Það er vandratað á slíkum slóðum.

En eiga einhverjir kröfu á því að samfélagsmiðlar (svo ekki sé minnst á aðra miðla) skaffi þeim vettvang?

Er eitthvað óeðlilegt við að samfélagsmiðlarnir setji reglur sem allir þurfa að fara eftir?

En auðvitað vaknar spurningin um hverjir dæma þá "seku" og hvernig er að því staðið.

Hins vegar má að mörgu leyti halda því fram að vald "fjölmiðlarisa" dagsins í dag sé mun minna en var, þegar tími dagblaða og stórra sjónvarpsstöðva ríkti.

Það kostar mun minna að koma á fót samfélagsmiðli en sjónvarpsstöð (þó að sá kostnaður hafi einnig minnkað), það kostar minna að koma á fót vefmiðli en prentblaði og svo má áfram telja.

En auðvitað eru "stóru aðilarnir" ráðandi á markaðnum og ef til vill má kalla þá "hliðverði" samtímans.

Persónulega er ég þó þeirrar skoðunar að slíkar takmarkanir eða lokanir muni ekki hafa þau áhrif sem óskað er eftir, jafnvel þveröfug.

Umræðan, hvort sem við teljum hana til góðs eða ills, mun finna sér farveg og nýjir miðlar munu spretta upp.

Hins vegar getur "sómakært fólk" haldið sig á meginstraumsmiðlunum og verður enn minna vart við "vandræðagemsana" en áður.

"Pólaríseringin", verður þannig enn meiri en áður og undrunin verður enn meiri en áður þegar komist er að því að það eru ekki allir sömu skoðunar og "vinir þínir á netinu".

Sumir einstaklingar verða enn vissari um að "vinstri fasistarnir" séu að reyna að ritskoða þá, en aðrir verða þess fullvissir um að "aðgerðirnar" virki, því þessar "ógeðfelldu skoðanir sjást bara ekki lengur".

Rétt eins og "enginn drakk á bannárunum". Lausnin er að banna hlutina.

En það er hægt að velta þessum hlutum endalaust fyrir sér, og í raun er það öllum hollt.

Svo má velta því hvort að ennþá verði vilji til að brjóta samfélagsmiðla eins og t.d FaceBook upp?

Munu komandi valdhafar í Washington gera það?  Elisabeth Warren var áhugasöm um slíkt.

Eða hafa þeir komist hjá slíkum "uppbrotum" með því að taka "rétta" afstöðu?

 

 


mbl.is Google fjarlægir Parler
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband