Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Heitt og sveitt

Það hefur skollið á með miklum hitum hér í Toronto, í gær og í dag heldur hitamælirinn sig rétt undir 30°C í forsælunni.  Í sólinni er því sem næst óbærilegt.  Þegar viðbætist rakastig í kringum 70% verður lífið ekki auðvelt.

Það er ekki hægt annað en að hugsa hlýlega til þess sem fann upp loftkælinguna. 

Rjómaísframleiðendur eru sömuleiðis ofarlega á vinsældalistanum.

Sem betur fer er von á að heldur dragi úr hitanum frá og með morgundeginum.

 


Nokkrar myndir

Ég hef ekki verið eins duglegur með myndavélina í vetur eins og stundum áður. En þó hef ég reynt að fara út að smella sem oftast. Hér eru nokkrar af þeim myndum sem ég hef tekið undarnfarnar vikur. Það er hægt að smella á myndirnar til að sjá þær stærri og færast þannig yfir á Flickr síðuna, þar sem finna má fleiri myndir. Eins og sjá má á þessum myndum kýs ég æ oftar að færa myndirnar mínar yfir í svart hvítan búning. Broadview  EspressoBalconies Artichokes in black and white Flower in black and white Forrest in black and white

Skin og skúrir

Það var fallegur nýjársmorgun hér í Toronto, sólin læddi sér fram stutta stund.  En síðan fór að hellirigna og hefur gert það sleitulaust síðan.

Það er ekki ólíklegt að þannig verði árið sem nú er að hefjast, það skiptist á skin og skúrir eins og flest önnur ár.

En það er samt engin ástæða til annars en að líta bjartsýn fram á veginn og reyna að sneiða fram hjá stærstu holunum.  Áfangastaðurinn er stundum óljós, en það er engin ástæða til þess að neita sér um að njóta ferðarinnar eins og kostur er.

Fjölskyldan að Bjórá óskar öllum, nær og fjær, hamingjuríks og farsæls nýs árs.  Þökkum það sem liðið er. 


Jólin koma

Hann var bjartur og sólríkur Aðfangadagsmorgunin hér í Toronto.  Heiðskýr himin og sólín skín, örlítið kalt, sem gerir inniveruna enn þægilegri.

Börnin voru auðvitað vöknuð fyrir aldir, síðasti skóladagurinn í gær og allt jólafríið framundan, sem og auðvitað sjálf jólin.

Það er mikil gæfa fyrir Íslenska þjóð (sem og þær norrænu) að orðið jól skuli vera notað yfir þessu miklu hátíð sem haldin er í miðju skammdeginu og markar miðpunkt þess.  Hátíð sem fagnar því að myrkrið er að hörfa og birtan sígur á jafnt og þétt.  Hátíð frelsunar, þakklætis og umfram allt samveru.  Jólín eru tími sem við notum til að rifja upp gamlar minningar og búa til nýjar.

Allir geta haldið og fagnað jólum, hver á sinn hátt.  Jólin eru ekki eign neinnar stofnunar eða neins eins hóps,  þau eru margslungin og hver getur fagnað þeim með sínum hætti.  Engin veit með vissu uppruna orðsins jól, en ýmsar tilgátur hafa komið fram.  Allt frá því að tengja orðið við fórnir til þess að orðið eigi uppruna sinn í gleði eða skemmtun og sé í raun skylt enska orðinu jolly, eða jafnvel franska orðinu joli.

En eins og stendur í kvæðinu:  Eitt er víst að alltaf verður, ákaflega gaman þá.

Það er ósk Bjórárfjölskyldunnar að allir megi eiga friðsæl og skemmtileg jól.

Við óskum öllum nær og fjær gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs.


Græn jól

Það er allt útlit fyir græn jól hér að Bjórá þetta árið.  Slíkt telst til tíðinda hér í Toronto, en haustið hér hefur verið með eindæmum milt.  Þó að veturinn hafi svo formlega tekið við hér í gær, hefur það ekki breyst, lóðir eru hér enn iðjagrænar og sömu sögu að segja af öðru graslendi hér í nágrenninu.

Þó er ekki hægt að tala um samfelld hlýindi, einstaka dag hefur frostið farið niður undir 10 stig, en úrkoma hefur ekki verið mikil og þá aðeins í formi rigningar á hlýrri dögum, en þeir voru líka nokkrir 10 stiga dagarnir plús megin í desember.

Flestir eru ósköp sáttir við þessu grænu jól, þó að vissulega megi heyra ýmsa óska eftir hvítum jólum.  Það má sömuleiðis heyra ákveðnar fullyrðingar frá yngri kynslóðinni þess eðlis að snjór sé til ýmissa hluta nytsamlegur.

En jólin eru alltaf ágæt, hvort sem þau eru hvít, rauð eða græn, það eru enda jólalitirnir.


Tannfall í morgun

Sá stóri atburður gerðist hér í morgun að Jóhanna Sigrún Sóley missti sína fyrstu tönn.  Þau gerast ekki öllu stærri tíðindin á þriðjudagsmorgni.

Tennur eru dýrmætar, ekki síst þær sem dottnar eru út. Tannálfar eru með stöndugri álfum hér í Kanada og er algengt að þeir greiði 5 dollara fyrir fallegar tennur.

Tannfé er undanþegið skatti hér í Kanada.  Ég verð að viðurkenna að ég fylgist ekki nógu vel með skattabreytingum á Íslandi til að fullyrða að svo sé enn þar.

Að eiga svo von á því að jólasveinn og tannálfur komi báðir um sömu nóttina, er svo nokkurn veginn nóg til að ræna hvert barn svefni.


Stekkjastaur er útrásarvíkingur

Hann, ásamt bræðrum sínum hefur komið við hér í Kanada undanfarin ár við mikinn fögnð innfæddra hér að Bjórá.  Hér fá allir íbúar litlar gjafir í skó eða glugga ef hegðun þeirra hefur verið með ágætum.

Sem reyndist niðurstaðan í morgun.


mbl.is Stekkjarstaur kominn til byggða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

7. ára gamall sjentilmaður

Ég hitt móður eins af bekkjarsystkinum sonar míns þegar ég beið barnanna fyrir utan skólann í dag.  Hún hafði það eftir dóttur sinni að sonur minn ætti kærustu í bekknum, og nefndi nafn stúlkunnar. 

Þar sem við gengum heimleiðis ákvað ég að bera þetta undir minn mann og spurði hvort að hann ætti einhverja kærustu.  Örlítið undirleitur sagði hann já.   Ég spurði hann næst að því hvað hún héti.  Heldur undirleitari en áður tjáði hann mér að hann myndi það ekki.  Þegar ég lýsti þeirri skoðun minni að það væri ekki gott að muna ekki nafnið á kærustunni sinni svaraði hann frekar djarfleitur:  Það gerir ekkert til, ég man ennþá hvernig hún lítur út.

Ekki var rætt meira um kærustur á heimleiðinni.


100 ára fjölskylda

Í gær náði fjölskyldan hér að Bjórá þeim merka áfanga að verða 100 ára.  Það er að segja sameiginlega.

Af taktískum ástæðum verður þess ekki getið hér hvernig þessi 100 ár skiptast á milli meðlima fjölskyldunar, en það viðurkennist þó að börnin eru ung.


Í ferðalögum

Bjórárfjölskyldan hefur verið dugleg að ferðast þetta sumarið, en allar ferðirnar þó verið stuttar í vegalengdum talið og allar innan Ontario utan ein, en þá voru nágrannarnir í Quebec heimsóttir.

Fjölskyldan heimsótti borgirnar Ottawa og Montreal og síðan var gist í fylkis eða þjóðgörðum, en þeir voru Arrowhead, Bon Echo, Mont Tremblant og Killbear.

Í borgunum var gist á hótelum, en tjaldið notað í fylkis/þjóðgörðunum.  Alls staðar var eftirminnilegt að koma og góðar minningar urðu til.  Yngri meðlimir Bjórárfjölskyldunnar kunna vel að meta að sofa í tjaldi og hafa gaman af þvi að hitta fyrir dádýr, froska og önnur þau dýr sem við höfum verið svo heppin að rekast á á.

Þess má til gamans geta fyrir þá sem velta því mikið fyrir sér hvað kosta megi inn á ferðamannastaði, að hvergi er ókeypis að heimsækja fylkis/þjóðgarða hér í Kanada.  Dagskort kostar gjarna um 11 dollar (ca, 1300 krónur, rukkað er á bíl), en gistinóttin kostar ríflega 42 dollara (u.þ.b. 4900 krónur) fyrir gistireitinn (oft er möguleiki á því að setja upp 2. tjöld).  Innifalið í gistingunni er aðgangur að rennandi vatni,  salerni (oftast vatnssalerni) og sturtu.  Á Mont Tremblant tjaldsvæðinu var þó sjálfsalli í sturtuna og kostuðu hverjar 4. mínútur 50 cent (u.þ.b. 60. krónur).  Rétt er að geta þess að tjaldstæðin er nokkuð frábrugðin því sem oftast þekkjast á Íslandi, en hvert tjaldstæði er í littlu rjóðri í skóginum.

Hótelherbergin sem gist var í kostuðu frá 80 dollurum upp í rétt ríflega 200, allt eftir hve vel þau voru staðsett, útbúnaði og hvenær ferðatímabilsins þau voru heimsótt, öll áttu þau það sameiginlegt að hafa tvö rúm í drottningarstærð (queensize), þannig að vel fór um 4ja manna fjölskyldu í þeim.

Síðsumars keypti fjölskyldan sér uppblásanlegan kayak, en vötn eru sjaldnast langt undan þegar ferðast er um Kanada, en hann sést á einni myndinni hér að neðan.

En annars eru hér að neðan smá sýnishorn af þeim aragrúa mynda sem teknar voru á ferðalögunum, hægt er að smella á myndirnar til að sjá þær stærri, en fleiri myndir er að finna á slóðinni www.flickr.com/tommigunnars

Bridge Over Ottawa River The Good Life - Canadian Style Twilight In Bon Echo In The Night Water As Art Sea Eagle On Lac Monroe The Mountains Are Blue The Sun Sets In Mont Tremblant National Park Calm Frog Beaver Bridge in The Sunset

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband