Grundvallarmunur á vegg og vegg?

Það má segja að það sé mikill miskilningur að landamæraveggur sé einfaldlega það sama og landamæraveggur. Þó að útlitið sé svipað má segja að í grunninn þjóni landamæraveggir mismunandi tilgangi.

Annars vegar það sem algengara er, að tryggja yfirráð ríkis yfir landamærum sínum og betri stjórn á því hverjir komist þar yfir og svo hins vegar að hindra að eigin þegnar komist á brott.

Á þessu tvennu er reginmunur.

Því ætti ekki að leggja að jöfnu veggi s.s. Berlínarmúrinn eða þann múr sem er á landamærum koreönsku ríkjanna og þá veggi sem eru t.d. á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, Spánar og Marókkó eða þann vegg sem Tyrkir eru að reisa á landamærum sínum og Sýrlands, með stuðningi Evrópusambandsins.

Veggir sem halda þegnunum inni, gera ríkin að ígildi fangelsis, það var raunin með A-Þýskaland og raunar flest hin sósíalísku ríki í A-Evrópu og það er raunin með N-Kóreu.

En það á engin sjálfgefin rétt á því að koma til annars lands. Mexíkanar eru ekki sviptir grundvallarréttindum þó að veggur hindri þá í að fara yfir landamærin til Bandaríkjanna. Eftir sem áður geta þeir sótt um vegabréfsáritun, en auðvitað er óvíst að viðkomandi fái hana.

Sama gildir um Marókkóbúa sem vill fara yfir á spænskt landsvæði, hann á engan sjálfgefinn rétt til slíks og verður að sækja um vegabréfsáritun inn á Schengen svæðið.

Hvorugur veggurinn brýtur á réttindum eins né neins.

Hvers vegna áform um vegg á landamærum Bandaríkjanna (sem þegar hafa vegg á löngum köflum) framkalla svo mikið sterkari viðbrögð en veggur á landamærum Spánar og Marókkó, eða t.d. Tyrklands og Sýrlands er spurning sem ef til vill fer best á að hver svari fyrir sig.

En skyldu Íslendingar eiga von á því að lagðar verði fram þingsályktunartillögur sem fordæmi alla þessa veggi og múra?

 

 


mbl.is Landamæraveggir víða um heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstaklingssalerni eina lausnin?

Það er í sjálfu sér ekki þörf á flóknum aðgerðum til þess að allir geti verið sáttir og gert þarfir sínar óáreittir.

En það kostar örlítið meira pláss og þó nokkuð meiri fjárútlát.

Lausnin er einfaldlega að byggja einstaklingssalerni.

Þannig er málum t.d. háttað í skóla dóttur minnar og hefur verið í áratugi ef ég hef skilið rétt.

Vissulega er ekki hægt að leysa málin á þann hátt "yfir nótt", en ætti að vera sjálfsagt að marka stefnuna þangað.

Þeir sem vilja vera í friði fyrir hinu eða hinum kynjunum hljóta einnig að eiga sín réttindi, eða hvað?

 

 


mbl.is Kynlaus klósett í Háskólanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sögulegur sigur Íhaldsflokksins í aukakosningum í Bretlandi

Þessi frétt lætur ef til vill ekki mikið yfir sér, en þó má lesa all nokkur tíðindi í henni, en það má segja að á þau sé ekki minnst.

Verkamannaflokkurinn bauð í raun afhroð í Copeland, það er ekki hægt að kalla það neitt annað.

Flokkurinn hefur, þar til nú, unnið sigur í kjördæminu frá því að því var komið á fót (1983) og í því og fyrirrennara þess í samfellt 80 ár.

Þessi sigur Íhaldsflokksins er jafnframt fyrsti sigur sitjandi stjórnarflokks í aukakosningum í u.þ.b. 35 ár, eða síðan 1982.

Staða Verkamannaflokksins, þrátt fyrir sigur í Stoke, virðist fara síversnandi og ekki síst staða formannsins Jeremy Corbin´s, sem ýmsir töldu tákn um nýja tíma vinstrisins í alþjóða stjórnmálum (ásamt Bernie Sanders).

Verkamannaflokkurinn vinnur hins vegar varnarsigur í Stoke, kjördæmi sem hann hefur sömuleiðis haldið eins lengi og elstu menn muna. Sjálfstæðisflokkurinn (UKIP) vinnur á, en langt í frá eins mikið og margir höfðu reiknað með, því jafnvel var talið að hann ætti möguleika á sigri.

En Stoke hefur verið kölluð "höfuðborg Brexit", enda greiddu um 70& kjósenda í kjördæminu atkvæði með úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu.

Það er einmitt hluti af vandræðum Verkamannaflokksins, en mikill fjöldi frammámanna flokksins hefur verið fylgjandi "Sambandsaðild", en meirihluti þeirra kjördæma sem þeir hafa þingmenn í, greiddu atkvæði með úrsögn.

En báðar þessar aukakosningar styrkja í raun yfirburðastöðu Íhaldsflokksins í breskum stjórnmálum.

Margir höfðu spáð því að Brexit kosningarnar myndu kljúfa flokkinn, en í raun hafa þær gert hann mun sterkari, en Verkamannaflokkurinn er ekki nema svipur hjá sjón.

Sjálfstæðisflokkur hins sameinaða konungsdæmis hefur einnig átt nokkuð erfitt uppdráttar. Ekki það að 25% atkvæða í Stoke geti talist slakur árangur, en samt virðist flokkurinn eiga erfitt mað að finna tilgang, nú eftir að Bretar hafa samþykkt úrsögn úr "Sambandinu" og að hin "charismatíski" leiðtogi Nigel Farage hefur stigið til hliðar.

Ég hef áður sagt að Sjálfstæðisflokkurinn muni eiga erfitt með að finna fótfestu nú eftir Brexit og ég held að þessar aukakosningar renni stoðum undir þá skoðun.

Ýmsir hafa sagt að eini möguleiki flokksins til að sækja fram sé að sveigja stefnuskrá sína enn frekar til vinstri en nú er, til að keppa við Verkamannaflokkinn, hvort að slík stefnubreyting verði ofan á á eftir að koma í ljós.

En báðar þessar aukakosningar, þó sérstaklega sú í Copeland, styrkja yfirburðastöðu Íhaldsflokksins í breskum stjórnmálum.

Það er nokkuð sem Brexit hefur fært þeim, þvert á flesta spádóma.

P.S. Það er ekki oft sem mér þykir fréttaflutningur RUV betri en mbl.is, en það er þó í þessu tilviki. Frétt RUV er alltof grunn, en nær þó frekar að koma meginatriðunum til skila.

 


mbl.is Verkamannaflokkurinn tapaði og vann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

99 ár

Í dag, 24. febrúar eru liðin 99 ár síðan Eistlendingar lýstu yfir sjálfstæði sínu. Áður hafði ekkert eistneskt ríki þekkst, þó að þjóðin og tungumálið hafi verið til staðar.

Yfirlýsing þess efnis hafði verið samin þann 21., lesin upp í Pärnu þann 23., en prentuð og lesin upp í Tallinn (stærsta borg Eistlands og síðan þá höfuðborg) þann 24.

Sá dagur er síðan þjóðhátíðardagur Eistlendinga.

En sjálfstæðið kom ekki baráttulaust. Eistlendingar þurftu bæði að berjast við Sovétið og svo einnig þýskar herdeildir (landeswehr) sem urðu eftir í landinu eftir uppgjöf Þýskalands.

En hið nýstofnaða ríki naut stuðnings. Mesti réði líklega stuðningur Breta, en sjálfboðaliðar frá Finnlandi og stuðningur frá hvítliðum og Lettlandi skipti einnig máli.

En friðarsamningur var undirritaður við Sovétríkin árið 1920.  Þá féllu löndin frá öllum landakröfum á hendur hvort öðru.

Nokkuð sem Sovétríkin áttu alla tíð erfitt með að standa við. 16. júni 1940 settu Sovétríkin svo Eistlandi úrslitakosti, og í kjölfarið komu sér upp herstöðvum í landinu.  Það tók svo ekki nema nokkra mánuði áður en Eistland (og Eystrasaltslöndin öll) var innlimað í Sovétríkin.

Þannig var Eistland hernumið af Sovétríkjunum þangað til í ágúst 1991 (ef frá eru talin þau ár sem landið var hernumið af Þjóðverjum í seinni heimstyrjöldinni).

Og leið landsins sem lýsti yfir fullveldi sínu snemma árs 1918 og Íslendinga sem öðluðust fullveldi sitt 1. desember sama ár, lá aftur saman í ágúst 1991, þegar Ísland var fyrst ríkja til að viðurkenna endurheimt Eistlendinga á sjálfstæði sínu.

Til fróðleiks má geta þess að 1. desember er oft minnst í Eistlandi, en þó með neikvæðum formerkjum, því þann dag 1924, reyndu eistneskir kommúnistar með stuðningi Sovétríkjanna valdarán í Eistlandi, sem mistókst.

 

 

 

 


Svona eins og gerist í "samanburðarlöndunum"?

Það hefur oft verið rætt um hvort að auka ætti einkarekstur í íslenska heilbrigðiskerfinu, nú síðast hvort að leyfa ætti sjúkrarúm í einkaeigu þar sem sjúklingar gætu legið nokkra daga.

Í viðhengdri frétt má lesa um einkafyrirtæki í Svíþjóð sem hefur u.þ.b. 25% markaðshlutdeild í hryggskurðaðgerðum í Svíþjóð.

Í Stokkhólmi er fyrirtækð með tæplega 30 sjúkrarúm, 4. skurðstofur.

Stærsti eigandi fyrirtækisins er skráður í kauphöllina í Stokkhólmi, hann á rétt rúmlega 90% af fyrirtækinu. Ef ég hef skilið rétt dreifast hinir eignarhlutirnar aðallega á starfsfólk, en ég þori ekki að fullyrða um það hér.

Skyldi starfsemin vera ógn við sænska velferð eða lýðheilsu sænsku þjóðarinnar?

Ætli ríkisstjórn jafnaðarmanna í Svíþjóð hafi það á stefnuskránni að færa þetta allt aftur undir sænska ríkið?

Ég held ekki.

Ef vilji er til þess að gera íslenska heilbrigðiskerfið líkara því sem gerist í nágrannalöndunum, eða "samanburðarlöndunum", er rými til að auka einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, líklega all verulega.

P.S. Stuttu eftir að ég hafði póstað þessari færslu, rakst ég á stutta frétt frá Svíþjóð sem sýnir að vandamálin sem við er að eiga í heilbrigðiskerfinu eru ekki svo ósvipuð á Íslandi og í Svíþjóð.

 

 


mbl.is Með 25% hryggskurðaðgerða í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópusambandið heillar ekki Íslendinga

Sé tekið mið af þeim skoðanakönnunum sem birtst hafa á Íslandi er óhætt að segja að "Sambandið" heilli ekki Ísleninga.

Góður meirihluti hefur verið gegn því að Ísland sæki um inngöngu og gjarna u.þ.b. 2/3 þeirra sem taka afstöðu.

Þannig hefur staðan verið í ríflega 7 ár eins og lesa má í viðhengdri frétt.

Það er jafnvel lengri tími en Grikkland hefur notið einstakrar fjárhagsaðstoðar ríkja hins sama "Sambands", og þykir þó mörgum það ærinn tími.

Og stuðningurinn við inngöngu Íslands í "Sambandið" styrkist ekki, ekki frekar en efnahagsástandið í Grikklandi eða skuldir Grikkja minnka.

Þrátt fyrir það er umsókn ótrúlega "heitt" mál í íslenskum stjórnmálum (þó ekki hjá kjósendum) og nýlega hafa flokkar verið stofnaðir með það að markmiði að Ísland gangi í "Sambandið".

Það er enda einn hópur sem sker sig úr hvað fylgi við aðild varðar (þó að hópurinn sé ekki stór), en það er ríkisstjórn Íslands.  Þar er fylgi við aðild u.þ.b. 45%  verulega úr takti við þjóðina.

 

 

 

 


mbl.is Tveir þriðju andvígir inngöngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er einhver meiri lýðskrumari en Hollande?

Það er ef til vill rétt að byrja á því að segja að ég er ekki einn af þeim sem set "absólút" samasem merki á milli popúlisma og svo þess sem ég kalla lýðskrum.  Það þýðir ekki að popúlistar geti ekki verið lýðskrumarar, en í mínum huga er þetta ekki sami hluturinn.

En eru þeir margir stjórnmálamennirnir sem hafa í raun reynst meiri lýðskrumarar en Hollande?

Hvað stendur eftir framkvæmt af þeim loforðum sem hann bar á borð fyrir franska kjósendur fyrir 5 árum?

Hvað um loforðið að draga úr atvinnuleysi?  Getuleysi hans, einhverjir myndu sjálfsagt kalla það svik, gagnvart því loforði er yfirleitt talin meginástæða þess að hann þorir ekki að bjóða sig fram til endurkjörs.

Hvernig hefur þróun fransks efnahagslífs verið undir hans stjórn?  Hvernig er hún borin saman við næstu nágranna s.s. Þýskaland og Bretland?

Hverju lofaði hann, hvað stóð hann við?

Mun eitthvað standa eftir valdatíð hans þegar henni líkur í sumar, nema lýðskrum og líklega einhver dýrasta hárgreiðsla heims?

 

 

 

 


mbl.is Varar við uppgangi popúlista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkel segir að euroið sé of lágt skráð - fyrir Þýskaland

Fyrir stuttu síðan bloggaði ég um að fjármálaráðherra Þýskalands teldi euroið of sterkt - fyrir Þýskaland.

Fyrir fáum dögum lét svo sjálfur kanslarinn, Merkel orð falla í sömu átt.

"The ECB has a monetary policy that is not geared to Germany, rather it is tailored (to countries) from Portugal to Slovenia or Slovakia. If we still had the (German) D-Mark it would surely have a different value than the euro does at the moment. But this is an independent monetary policy over which I have no influence as German chancellor."

The euro has fallen nearly 25 percent against the dollar over the past three years, touching a 14-year low of $1.034 in January. But it has since risen to roughly $1.061.

Enn og aftur viðurkenna leiðtogar Þýskalands að euroið sé of veikt skráð fyrir landið, en benda á Mario Draghi, seðlabankastjóra.

Enn og aftur kemur í ljós að euroið hentar þeim löndum sem nota það ákaflega mismunandi. Enginn mundi halda því fram að euroið sé of veikt fyrir Grikkland, Ítalíu, Frakkland, Spán, Portúgal og svo framvegis.

En það er Þýskaland sem nýtur að lang stærstum hluta ágóðans of lágu gengi eurosins, sem Draghi töfrar fram, ekki síst með gríðarlegri peningaprentun, en kemur að hluta til út af bágu efnahagsástandi landa innan Eurosvæðisins.

Eins og áður hefur verið minnst á er ástandið að sumu leyti svipað á öðrum myntsvæðum, s.s. Bandaríkjunum og t.d. Kanada.  En þar fer fram umfangsmikil millifærsla á fjármunum hjá ríkisstjórnum.  Að öðrum kosti reyndist það t.d. næsta ómögulegt fyrir Prince Edward Island eða Manitoba að deila gjaldmiðli með Alberta (þó að það sé heldur skárra nú þegar olíuverð er lágt).  Þess vegna skiptast fylki Kanada í "have" og "have not". Um það má lesa hérhér og hér.

Bandaríkin eru ekki með jafn skipulagt kerfi, en þó er gríðarlega misjmunur á milli þess hvað mörg ríki greiða í alríkisskatt og hve miklu af honum er eytt í þeim. Það er býsna flókin mynd, en til einföldunar má líklega segja að fjármagn flytjist frá þéttbýlli ríkjunum til þeirra strjálbýlli.

En á Eurosvæðinu verða skilin á milli "have" og "have not" ríkja ef eitthvað er meira áberandi og enginn má heyra á það minnst að gefa Grikklandi eftir eitthvað af skuldum þess. Það verður þó líklega niðurstaðan með einum eða öðrum hætti, en ekki fyrr en Grikkland verður í "andarslitrunum".

P.s. Það er auðvitað freistandi fyrir íslenska stjórnmálamenn að taka framgöngu þeirra þýsku til eftirbreytni.

Þegar rætt er um að krónan sé of há, nú eða of lág, er best fyrir þá að segja að þeir séu meðvitaðir um það og sammála því, en þetta sé einfaldlega allt Má Guðmundssyni að kenna. :-)

 


Já og nei og ef til vill - Skoðanir og falskar fréttir?

Við höfum séð þetta allt áður. Skoðanir einstakra aðila eru "klæddar upp" sem staðreyndir í fréttum.

Ef að Bretar tækju ekki upp euroið beið þeirra einangrun og efnahagslega hnignun. Reyndist ekki satt.

Ef Bretar segðu já við því að yfirgefa Evrópusambandið biði þeirra efnahagslegt hrun og einangrun.  Svo hefur ekki verið.

Aðildarumsókn að Evrópusambandinu átti að vera töfralausn fyrir íslenskan efnahag. Staðreyndin er sú að efnahagsbati Íslendinga fór fyrst á flug þegar við tók ríkisstjórn sem stefndi í allt aðra átt en aðild að Evrópusambandinu.

Hvað gerist í Frakklandi ef það ákveður að segja skilið við euroið og/eða Evrópusambandið er í raun engin leið að fullyrða, því það er svo langt í frá að það sé eina breytan í efnahagslífi Frakka.

Það er hægt að taka fjöldan allan af réttum eða röngum ákvörðunum samhliða þeim ákvörðunum.

Þó þykir mér trúlegt að það myndi í upphafi hafa í för með sér aukin kostnað fyrir Frakka. Óvissa gerir það gjarna.

En væri haldið rétt á spöðunum, þykir mér líklegt að slíkt myndi reynast Frökkum vel.  Stjórn yfir eigin málum er líkleg til þess.

Ef þróun samkeppnishæfi Frakklands og skuldastaða hins opinbera er skoðuð frá því að euroið var tekið upp, er engan vegin hægt að álykta að það hafi reynst Frakklandi vel.

En það er alls ekki gefið að það myndi Marion Le Pen heldur gera.

En ef skoðaðir eru spádómar varðandi Bretland, hljóta allir að taka spádóma eins og hér koma fram (í viðhengdri frétt) með miklum fyrirvara, ef ekki kalla slíkt "falskar fréttir".

Slíkar skoðanir eru einfaldlega ekki meira virði en aðrar pólítískar skoðanir.

 


mbl.is Dýrt að yfirgefa evruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálaráðherra Þýskalands segir að euroið sé of veikt - fyrir Þýskaland

Undanfarnar vikur hefur mátt lesa um deilur á milli Bandaríkjanna og Þýskalands um hvort að lágt gengi eurosins veiti Þýskalandi óeðlilegt forskot hvað varðar útflutning.

Eins og eðlilegt er í deilumáli sem þessu sýnis sitt hverjum.

En nýverið tók þó fjármálaráðherra Þýskalands að nokkru undir með þeim sem segja að Þýskaland njóti að nokkru óeðlilegs forskots.  Það er að segja að euroið sé of veikt - fyrir Þýskaland.

Eða eins og lesa mátti í frétt Financial Times:

German finance minister Wolfgang Schäuble has blamed the European Central Bank for an exchange rate that is “too low” for Germany, following criticism last week from US president Donald Trump’s top trade adviser.

Mr Schäuble acknowledged in a newspaper interview that the ECB had to set monetary policy for the eurozone as a whole, but said: “It is too loose for Germany.”

“The euro exchange rate is, strictly speaking, too low for the German economy’s competitive position,” he told Tagesspiegel. “When ECB chief Mario Draghi embarked on the expansive monetary policy, I told him he would drive up Germany’s export surplus . . . I promised then not to publicly criticise this [policy] course. But then I don’t want to be criticised for the consequences of this policy.”

Þó endanlegar tölur liggi ekki fyrir er líklegt að Þýskaland hafi verið það land sem notið hafi mests afgangs af milliríkjaviðskiptum á síðasta ári, meira að segja all verulega meira en Kína.

Í frétt FT mátti ennfremur lesa:

Mr Schäuble pointed out that Germany was not able to set exchange rate policy and pinned responsibility for the euro’s weakness against the dollar on the ECB. The German finance ministry was “not an ardent fan” of the ECB’s policy of quantitative easing that had helped to weaken the single currency. 

According to the Ifo Institute, Germany recorded a trade surplus of nearly $300bn last year, outpacing China by more than $50bn to hold the world’s largest trade surplus. Critics in Brussels and Washington have called for Germany to reframe its fiscal policy and stimulate domestic demand to increase imports.

Það er spurning hvort að þetta eigi eftir að verða að frekari illindum á milli Þýskalands og Bandaríkjanna.

En það verður ekki um það deilt að á pappírunum hefur Þýskaland ekkert um aðgerðir Seðlabanka Eurosvæðisins að segja. 

Það er einnig staðreynd að þótt að gengið á euroinu sé of lágt fyrir Þýskaland, er það of hátt fyrir önnur ríki í myntsamtarfinu, t.d. Grikkland, Ítalíu, Frakkland, Portúgal  og svo má eitthvað áfram telja.

Þá benda ýmsir á að þessu sé eins farið í t.d. Bandaríkjunum, sama gengið á dollar eigi ekki við Alabama og Kalíforníu, eða N-Dakóta og New York.

Ef til vill mætti segja að það sama gildi um Ísland, Raufarhöfn þyrfti í raun annað gengi en Reykjavík og Suðureyri þyrfti annað gengi en Suðurnes, alla vegna stundum.

En þetta eru ekki fyllilega sambærilegir hlutir.  Uppbygging Bandaríkjanna og Íslands er önnur en Evrópusambandsins.

Þannig er efnahagsástand vissulega misjafnt eftir ríkjum í Bandaríkjunum, en "Alríkið" er þó mörgum sinnum sterkara en í Evrópusambandinu, enda "Sambandið" ekki sambandsríki - alla vegna ekki enn.

Þess vegna er stuðningur og flutningur fjármagns á milli ríkja með allt öðrum hætti í Bandaríkjunum en í Evrópusambandinu.  Það sama gildir t.d. um Kanada og í raun einnig Ísland.

Enda eru engin ríki Bandaríkjanna í hjálparprógrammi hjá Alþjóðagjaldeyrisjóðnum, þau enda ekki sjálfstæðir aðilar að sjóðnum.

Það er einmitt eitt af vandamálum við uppbyggingu "Sambandsins", Þýskaland nýtur kosta myntsamstarfins, án þess að bera nokkra raunverulega ábyrgð eða skyldur til að dreifa honum til annara þátttakenda.

Þó er heimilt samkvæmt sáttmálum eurosamstarfsins að beita sektum gegn ríkjum sem hafa of mikinn jákvæðan viðskiptajöfnuð, en engin innan "Sambandsins" vogar sér að beita því vopni gegn Þjóðverjum.

Er óeðlilegt að önnur ríki hyggist grípa til slíks?

 

 


Skemmtileg tilviljun?

Það er óneitanlega skemmtilegt að daginn eftir að umræður spunnust á Alþingi um að orðnotkunin "hagsýnar húsmæður" væri óviðeigandi, skuli vera lagt fram frumvarp um afnám laga um orlof húsmæðra.

Það er meira að segja búið að biðjast afsökunar á notkuninni.

Það er því varla seinna vænna að leggja niður óviðeigandi orlof, eða hvað?

Varla fara þær í stórum hópum í slíkt orlof nú til dags?

En hvaða þingmenn skyldu verða á móti niðurfellingu laganna?

Varla hinar meintu "hagsýnu húsmæður"?

 

 


mbl.is Húsmæðraorlof verði afnumið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falskar fréttir eiga sér langa sögu

Falskar fréttir eiga sér líklega jafn langa sögu og fréttir, ef ekki heldur lengri.  Alla vegna hafa kvik og flökkusögur farið víða og skjóta oft upp kollinum aftur og aftur.

En falskar fréttir fá kraft sinn og styrk frá þeim fjölmiðlum sem birta þær. Því áreiðanlegri fjölmiðill, því áreiðanlegri fréttir - ekki satt?

Og af því að nafn New York Times er nefnt þarna sem fjölmiðils sem flytur falskar fréttir, þá er það ekki eins dæmi að blaðið sé sakað um slíkt, þrátt fyrir að margir telji það einn áreiðanlegast fjölmiðil veraldar.

Skemmst er að minnast hálfgerðrar afsökunar blaðsins sjálfs eftir forsetakosningarnar, sem og afsökunar "umboðsmanns lesenda" yfir þeim fréttum sem ekki birtust af Hillary Clinton.

En að New York Times hafi birt "falskar fréttir" eða þurft að biðjast afsökunar á þeim á sér býsna langa sögu.

Eitthvert frægasta dæmi um "falskar fréttir" sem birtar hafa verið er einmitt af síðum New York Times og það sem meira er, fréttamaðurinn sem þær skrifaði hafði stuttu áður hlotið Pulitzer verðlaunin.

Til að rifja þær upp þurfum við að fara aftur til fjórða áratugs síðustu aldar (sem er reyndar furðu vinsælt núna).

Þá var Walter Duranty fréttaritari blaðsins í Sovétríkjunum. Hann fullyrti að vissulega væru einhverjir þegnar þar svangir, en harðneitaði að þar ríkti hungursneyð.

Hann gekk það langt að fullyrða að allar fréttir um hungursneyð væru ýkjur eða illkvittinn áróður.

New York Times birti einnig fullyrðingar Duranty´s um að fréttir sem hefðu breskir blaðamenn hefðu skrifað um hungursneyðina í Ukraínu væru falskar og hluti á áróðursstríði Bretlands gegn Sovétríkjunum.  Deildi hann harkalega á hina bresku blaðamenn sem dreifu falsi.

En Duranty var ófeiminn við að lofa Stalín og Sovétríkin og eins og áður sagði fékk hann Pulitzer verðlaunin fyrir greinarflokk þaðan.

Þó varasamt sé að fullyrða um slíkt, vilja margir meina að greinarflokkur Duranty´s og fullyrðingar hans um ástandið í Sovétríkjunum hefi gert Franklin D. Roosevelt, pólítískt kleyft að viðurkenna Sovétríkin, sem hann gerði á sínu fyrsta ári í embætti forseta, 1933.

Það var síðan ekki fyrr en eftir valdatöku Gorbachevs sem fyrir alvöru var farið að huga að hversu alvarlegar rangfærslur Duranty hafði sett fram.

Þegar samtök Kanadabúa af Ukraínskum uppruna höfu svo herferð árið 2003 til að svipta Duranty Pulitzer verðlaunum, lét New York Times óháðan aðila loks rannsaka "fréttamennskuna".

2003 birti New York Times svo langa afsökunarbeiðni vegna falskra og hálf falskra frétta skrifaðar af Jayson Blair sem birst höfðu í blaðinu.

Þetta eru bara tvö dæmi sem ég datt um af tilviljun.

Sjálfsagt má finna fjöldan allan til viðbótar.

Falskar fréttir eru ekki nýtt fyrirbrigði og munu seint hverfa.

En sjálfsagt er það til bóta að þær komist meira í umræðuna og við lærum að lesa fréttir með gagnrýnu hugarfari og halda okkur ekki við eina eða tvær fréttaveitur.


mbl.is Falskar fréttir fara á flug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Le Pen, Macron eða Fillon sem forseti? En hver sigrar í þingkosningunum?

Það er ekki langt síðan að talað var um frönsku forsetakosningarnar líkt og úrslitin væru þegar ákveðin.

Reiknað var með að Lýðveldisflokkurinn (Les Républicains) bæri sigur úr býtum og eftir forkosningar hans leit út fyrir að Francois Fillon væri með pálmann í höndunum.

En gæfan er fallvölt í pólítík eins og víða annars staðar.

Ásakanir dynja nú á Fillon.  Svokallað "Penelopegate" hefur valdið honum sívaxandi vandræðum og fylgi hans í skoðanakönnunum hefur hrunið.  Nú er hann í þriðja sæti á eftir Le Pen og Macron.

En Fillon er sakaður um að hafa greitt konu sinni og börnum fast að einni milljón euroa, úr ríkissjóði, fyrir að aðstoða hann sem þingmann.  Störf sem aldrei voru unnin, eða svo segja ásakanirnar.

Það kann að koma einhverjum á óvart, að það er ekki ólöglegt fyrir þingmenn í Frakklandi að ráða eiginkonur og börn sem starfsmenn, en að sjálfsögðu er ætlast til að þau sinni starfinu ef þannig háttar.

Þetta mál hefur reynst Francois Fillon afar erfitt og jafnvel hafa heyrst raddir um að rétt væri að hann drægi sig í hlé.

Ef svo yrði, sem verður reyndar að teljast ólíklegt, en ekki ómögulegt, yrði það aðrar forsetakosningarnar í röð þar sem sá sem líklegastur þótti til að verða forseti hellist úr lestinni, þó með ólíkum hætti væri.

Dominique Strauss-Kahn, þótti líklegastur til að verða frambjóðandi Sósíalista fyrir síðustu kosningar, en heltist úr lestinni áður en svo varð, með eftirminnilegum hætti. Hollande varð því fyrir valinu sem frambjóðandi Sósíalistaflokksins og hefur setið í næstum 5 ár, með þeim afleiðingum að engin forseti hefur notið minna fylgis og Sósíalistaflokkurinn er ekki nema svipur hjá sjón.

Það er því varla hægt að segja að lognmolla ríki í frönskum stjórnmálum, þó að margir myndu sjálfsagt óska sér að ysinn og þysinn væri út af öðru en hneykslismálum.

En fall Fillon, hefur lyft Emmanuel Macron.

Velgengni Marcron nú á sér fáar ef nokkra hliðstæðu í frönskum stjórnmálum. En það má eiginlega segja að flest "púsl" hafi fallið honum í hag á undanförnum vikum.

Ekki eingöngu vandræði Fillon, heldur einnig val Sósíalistaflokkins á frambjóðanda sínum. Þar varð fyrir valinu Benoît Hamon, róttækur frambjóðandi langt til vinstri.

Allt þetta styrkir Macron, sem þykir miðjusækinn og reyndar finnst mörgum sósíalistanum hann alltof hægri sinnaður.

En til þess að komast í aðra umferð forsetakosninganna þarf Macron á stuðningi kjósenda Sósíalistaflokksins að halda, jafnframt því sem hann getur gert sér vonir um stuðning einhverra stuðningsmanna Lýðveldisflokksins og þeirra sem ekki fylgja neinum ákveðnum flokki.

En hann þarf að skilja á milli sín og Hollande, sem er fádæma óvinsæll, en það voru ekki síst aðgerðir Macron, á meðan hann sat í ríkisstjórn sem ollu óvinsældum á vinstri vængnum.

Allt þetta og fleira skiptir á meira máli nú þegar hin raunverulega kosningabarátta er að hefjast.

Það velta líka margir fyrir sér hverjir standi að baki Macron.  Hreyfing hans, eða nýr stjórnmálaflokkur "En Marche" (sem er erfitt að þýða, en "Af stað" eða "Hefjumst handa", gæti legið nokkuð nærri).

En Macron nam við "hinn hefðbundna" skóla franskra stjórnmálamann ENA og fullyrt er að helstu bakhjarlar hans séu núverandi og fyrrverandi háttsettir opinberir starfsmenn. Sagt er að hann sé meðlimur eða njóti stuðnings "Les Gracques" , en það er hópur sem kom fram 2007 og stofnaði fljótlega hugveitu.

En það getur óneitanlega háð Macron, að keppinautar hans hafa báðir mun þjálli "flokksmaskínu" að baki sér.  Ekki síst ef litið er til þeirrar staðreyndar að hann hefur notið umtalsverðs fylgis á meðal ungra kjósenda sem oft skila sér verr á kjörstað.

En nú þegar Macron gengur vel í skoðanakönnunum má búast við því að athyglin beinist að honum og ferli hans í vaxandi mæli og jafnfram árásir keppinauta hans, bæði frá vinstri og hægri.

Það er sömuleiðis allt of snemmt að afskrifa Fillon, hann er líklega með bestu "maskínuna" að baki sér og jafnframt með öruggustu fjármögnunina.

Talið er að Lýðveldisflokkurinn hafi hagnast í það minnsta um 9 milljónir euroa á forkosningunum og leggi af því í það minnsta 6 milljónir til baráttu Fillon.

Þjóðfylking Le Pen hefur hins verið í stöðugum fjárhagsvandræðum og átt erfitt með að tryggja sér lánsfé (sló eins og þekkt er lán hjá rússnesk ættuðum banka, en hefur átt erfitt með lánsfé fyrir komandi kosningar). Þjóðfylkingin hefur hins vegar að margra mati bestu internetbaráttuna, sem vissulega er mikils virði í nútímanum.

En hvergi hef ég rekist nokkuð á hvernig Macron hefur eða hyggst fjármagna sína baráttu.  Hann hefur haldið kvöldverðarboð þar sem sætið hefur verið selt á 7500 euro, en það er einmitt sú hámarksupphæð sem einstaklingur má styrkja frambjóðanda eða flokk á ári.  Ef ég man rétt er síðan hámarksupphæð sem forsetaframbjóðandi má eyða 16 milljónir euroa.

En kosningabarátta er eins og flestir gera sér gein fyrir dýr og talað er um að t.d. hafi útifundur Macron á Porte de Versailles, kostað í kringum 500.000 euro.

En ég held að útlit sé fyrir að frönsku forsetakosningarnar verði mun meira spennandi en reiknað var með - þ.e.a.s. fyrri umferðin. Ég er enn nokkuð viss um að Le Pen á enga raunhæfa möguleika í þeirri seinni, en hún gæti hæglega unnið þá fyrri.

En það eru aðrar kosningar í Frakklandi, örlítið á eftir forsetakosningunum sem ekki skipta minna máli, en það eru þingkosningar.

Þó að franski forsetinn sé býsna valdamikill þá verður hann að skipa forsætisráðherra sem nýtur stuðnings þingsins.

Fari svo að Macron eða ef svo ólíklega vildi til að Le Pen sigraði, er mjög líklegt að þau myndu þurfa að skipa forsætisráðherra úr röðum Lýðveldisflokksins eða Sósíalista. Flest þykir benda til sigurs Lýðveldisflokksins í þingkosningunum sem fram fara 11. og 18. júní. Næst stærsti flokkurinn yrði Sósíalistar.

Hvort að fylgismönnum Macron tækist að ná einhverjum þingmönnum er alls óljóst, en líklegt þykir að Þjóðfylkingin fjölgi sínum all nokkuð, en hún hefur aðeins 2. nú. Einmenningskjördæmi þar sem umferðirnar eru 2., gera smærri framboðum verulega erfitt fyrir.

Það er ekki óþekkt að forsætisráðherra og forseti komi frá sitthvorum flokknum (forseti frá hægri og forsætisráðherra frá vinstri og öfugt) en slíkt "sambýli" þykir þó yfirleitt ekki hafa gefið góða raun.

Það er því allt eins líklegt að framundan séu erfiðir pólítískir tímar í Frakklandi, nema helst ef Fillon nær að snúa taflinu við og verða forseti.

 

 

 


mbl.is Fillon biðst afsökunar á að ráða eiginkonuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fellur Merkel?

Angela Merkel hefur verið nokkur "fasti", ef svo má að orði komast, í evrópskum stjórnmálum. Engin núverandi evrópskur kjörinn þjóðarleiðtogi hefur setið lengur eða sigrað í jafnmörgum kosningum.(Putin á þó ef til vill lengri feril, en varð þó að taka "hlé", frá 2008 til 2012)

Nú stefnir hún að því að verða kanslari sitt 4. kjörtímabil.

Margir hafa talið að það væri lítið annað en formsatriði, svo sterk væri staða hennar í Þýskalandi og raunar innan Evrópusambandsins. "Mutter Merkel" væri örugg, hver færi s.s. að kjósa "mömmu" á brott.

En nú í fyrsta sinn í langan tíma benda skoðanakannanir til þess að sess hennar sé langt í frá tryggur.

Og hætttan kemur ekki frá hægri eða því sem margir vilja kalla "popúlíska flokka", heldur frá vinstri, frá sósíaldemókrötum, frá samstarfsflokki Kristilegra demókrata (flokki Merkel) undanfarin ár.,

En kosningarnar eru langt í frá tapaðar fyrir Merkel, en nýleg skoðanakönnun sýndi að frambjóðandi Sósíaldemókrata, Martin Schulz, er fyrsti kostur stærsta hluta Þjóðverja sem kanslari.

Schulz var fyrsti kostur sem kanslari 50% aðspurðra, á meðan Merkel hlaut aðeins 34%. 

En það er rétt að hafa í huga að kanslari er ekki kosinn beinn kosningu og enn hefur flokkur Merkel all nokkuð forskot á flokk Sósíaldemókrata.

Það bil hefur þó farið minnkandi.

Þessar niðurstöður skoðanakönnunarinnar þykja einnig benda til þess að Schulz og Sosíaldemókratar eigi möguleika, nokkuð sem hefur þótt nokkuð fjarlægt.

Schulz, sem er þekktastur sem fyrrverandi forseti Evrópusambandsþingsins, hefur þótt sækja á, og hafa það fram yfir aðra frammámenn Sosíaldemókrata að hann hefur ekki setið í ríkisstjórn.

En það er enn langt til kosninga og ótal breytingar líklegar til að eiga sér stað.  Eitt af stóru málunum verður án efa öryggi og málefni innflytjenda, jafnt löglegra sem ólöglegra.

Sosíaldemókratar virðast vera reiðubúnir til að taka mun harðar á ólöglegum innflytjendum en hingað til.

En það verður líklega einnig tekist á um Evrópusambandið, en Schulz hefur verið "Sambandríkissinni" og einn af ákafari talsmönnum "æ nánari samruna".

En eins og áður sagði er kanslari ekki kosinn beinni kosningu og að sjálfsögðu skipta frambjóðendur í hverju kjördæmi miklu máli, en það gerir leiðtoginn að sjálfsögðu einnig.

Og svo skipta aðrir flokkar og gengi þeirra einnig miklu máli, ekki hvað síst hvernig AfD mun vegna.  Margt bendir til að hann verði 3. stærsti flokkurinn, með 12 til 14%.

Síðan eru það Vinstri flokkurinn (Linke - arftaki Kommúnistaflokksins) og Græningar, sem báðir hafa í kringum 8%.  Nái Sosíaldemókratar góðri kosningu er möguleiki að þeir 3. gætu myndað ríkisstjórn.

En það er einnig vert að hafa í huga að það er engin ástæða til að afskrifa "mömmu", kosningabaráttan er öll eftir.

 

 

 


Benedikt og Viðreisn fylgja línunni frá "Sambandinu"

Það fást ekki margir til þess að mæla gegn aðgerðum gegn skattsvikum og hvað þá hryðjuverkum.

Eigendur aflandsfélaga eru svo líklega flokkaðir sem heldur verri en "venjulegir" skattsvikarar en skömminni skárri en en hryðjuverkamenn.

En allt er þetta notað sem afsökun fyrir því að þjarma að almenningi.

Vissulega er þarft að berjast gegn skattsvikum og hryðjuverkum.

En ég held að flestir geri sér grein fyrir því að stærstur hluti skattsvika og undanskota er ekki framin með reiðufé.

Hryðjuverkamenn hafa heldur ekki verið í vandræðum með að notfæra sér debit og kreditkort, hraðbanka og peningasendingar á milli landa.

Það sem hefur hins vegar leitt til gríðarlegrar aukningar á reiðufé í umferð í mörgum löndum er vantraust almennings á hinu opinbera og svo fjármálastofnunum s.s. bönkum.

Það er t.d. ekki tilviljun að eftir bankahrunið jókst sala á litlum peningaskápum mikið á Íslandi og það sama gildir um mörg önnur lönd.

Þegar vextir eru svo svo gott sem engir, eða neikvæðir og bankar taka æ hærri gjöld fyrir að "leyfa" einstaklingum að nota peningana sína, eykst hvatinn til þess að nota reiðufé.

Þegar viðbætist að hið opinbera heimtar stóran hluta af vöxtunum þrátt fyrir að þeir nái jafnvel ekki verðbólgu, eykst hvatinn til reiðufjárnotkunar enn.

Ellilífeyrisþegar á Íslandi þurfa svo að búa við að vaxtagreiðslurnar lækka lífeyrisgreiðslur þeirra.

Er að undra þó að margir kjósi að nota meira "cash"?

En slíkt er eitur í beinum bæði banka og yfirvalda.

Slíkt hindrar stjórn þeirra á bæði "peningamagni í umferð" og almenningi.

Það er erfiðara að "refsa" almenningi fyrir sparsemi og/eða setja sérstaka skatta á sparsemina ef einstaklingar kjósa að sofa meða þykkan kodda.

Það þarf því engum að koma á óvart að Evrópusambandið hafi skorið upp herör gegn reiðufé. Í löndum verðhjöðnunar, neikvæðra vaxta, síhækkandi þjónustugjalda og sívaxandi ríkisafskipta og og miðstýringar er nauðsynlegt að herða tökin á flæði fjármagns.

Sérstaklega peninga. Þess vegna er "Sambandið" að hefja miðstýrðar aðgerðir til að hindra og draga úr notkun reiðufjár.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að það tekur ekki langan tíma fyrir Benedikt og Viðreisn að taka þá línu á Íslandi.

P.S. Sá í morgun fréttaskýringu á Eyjunni um sama efni, sem er vel þess virði að lesa.


mbl.is Vill banna launagreiðslur í reiðufé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjarar undan "viðræðusinnum"

Það hefur sjaldan mælst verulega mikill stuðningur við inngöngu Íslands í Evrópusambandið, og er það vel.

En svokallaðir "viðræðusinnar" hafa verið býsna fyrirferðarmiklir.

Margir þeirra hafa jafnvel lýst sig andstæða inngöngu en hafa gefið aðlögunarviðræðum atkvæði sitt.

Frægastir þeirra eru velflestir forystumenn Vinstri grænna.

En aðildar og "viðræðusinnar" hafa einnig verið frekar fjölmennir á meðal fyrirtækjastjórnenda.  Þeir hafa einblínt á ýmsa kosti "Sambandsins" en gallarnir sem þeir framan af kusu að líta fram hjá, hafa þó komið æ betur í ljós.

Eins og einn "Sambandssinninn" orðaði það svo skemmtilega fyrir fáum árum: Menn voru svo uppteknir af því að selja kosti eurosins að þeir gleymdu að minnast á gallana.

En nú virðist vera að fjara undan "viðræðusinnum" á flestum vígstöðvum og er það fagnaðarefni.

Það er eiginlega með eindæmum hvað "Sambandsaðild" er þó algengt umræðuefni í íslenskum stjórnmálum.

Ef til vill er það síðasta vígi aðildarsinna?  En það bendir margt til þess að þeir séu á flæðiskeri staddir.

 


mbl.is Meirihluti nú andvígur viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástæðulaust að refsa fyrir móðganir á þjóðarleiðtogum

Ég er nokkuð sammála því að rökrétt sé að fella niður refsingu fyrir að "móðga" erlenda þjóðarleiðtoga.

Bæði er að þeir eru að ég tel velflestir ekki mjög móðgunargjarnir og svo hitt að þar sem líklegast er að erlendir þjóðhöfðingjar verði fyrir móðgunum og illu umtali njóta einstaklingar þinghelgi.

Það er því ástæðulaust fyrir ákæruvaldið að vera að eltast við almenning, enda ólíklegt að þjóðhöfðingjar frétti af slíkum móðgunum, eða taki þær verulega nærri sér.

En ég er verulega efins um að rétt sé að fella niður harðar refsingar fyrir að ráðast inn á eða valda skemmdum á svæðum sendiráða.

Það jafngildir árás á erlent ríki og hlýtur að teljast verulega alvarleg gjörð.

Friðhelgi sendiráða enda hornsteinn vinsamlegra samskipta á milli ríkja.

 


mbl.is Telur 95. grein vera tímaskekkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Múrar og bönn

Ólíkindatólið DJ Trump hefur svo sannarlega náð athygli heimsbyggðarinnar eftir að hann tók við embætti forseta Bandaríkjanna. Vissulega var hún töluverð fyrir þau tímamót en enn hefur verulega bætt í.

Það eru ekki síst tvær ákvarðanir hans sem hafa vakið athygli og ofsareiði á meðal margra.

Það eru uppfylling á þeim kosningaloforðum að byggja múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og svo að banna ríkisborgurum 7 landa að koma til Bandaríkjanna.

Byrjum fyrst á múrnum.

Ég get tekið undir með þeim sem segja að þetta sé ekki góð ákvörðun sem ekki komi til með að skila miklum árangri.

En á hvers rétt gengur bygging slíks múrs?

Að mínu mati nákvæmlega engra.  Fyrst ber að geta þess að múr hefur nú þegar verið byggður á stórum hluta landamæranna.

Það á enginn rétt á því að fara ólöglega yfir landamærin, í hvora áttina sem er. Íbúar Mexíkó, sem annara ríkja eiga engan rétt á því að fara yfir landamærin óáreittir. Smyglarar sem hafa lífsviðurværi sitt af því að lóðsa fólk yfir, eða flytja eiturlyf eiga heldur engan lögvarðan rétt til slíks athæfis.

Stjórnmálamenn, sem og aðrir, ættu að gera skýran greinarmun á því hvort að múr er byggður til að halda þegnum ríkis inni, eða því að halda þegnum annars ríkis úti.

Við reisum ekki girðingar til að loka nágranna okkar inni, heldur til að tryggja garðinn okkar fyrir óþarfa ágangi.

Múrinn veldur engum þeim sem hyggst koma löglega til Bandaríkjanna hinum minnstu óþægindum.

Hitt er svo að eins og ég sagði áður er framkvæmdin ef til vill ekki sérlega gáfuleg, og áætlanir um að greiða hana með tollum á mexíkanskar vörur, mun bitna á bandarískum borgurum, ekki síður en mexíkönskum.

En í raun er engin rökrétt ástæða til þess að æsa sig yfir þessum áformum, enda múrar og girðingar á landamærum víða um heim og hefur m.a. farið fjölgandi t.d. í Evrópu.

Persónulega get ég því ekki séð ríkar ástæður fyrir því að bregðast harkalega við þessum áformum, allra síst fyrir leiðtoga eða þegna annara ríkja.

Síðan er það ákvörðunin um að banna ríkisborgurum 7 ríkja, sem öll geta talist "múslimaríki" að koma til Bandaríkjanna.

Það er eðlilegt að sú ákvörðun sé umdeild.

Sérstaklega vegna þess að ákvörðunartakan og framkvæmd hennar var vægast sagt illa undirbúin og kauðalega að henni staðið.

Þannig var í upphafi ekki ljóst hvernig skyldi staðið að framkvæmdinni og t.d. hvort að tilskipunin gilti um þá sem hefðu tvöfaldan ríkisborgarétt.

En bönn og takmarkanir á komu fólks til ákveðinna landa er ekkert nýnæmi, mýmörg önnur dæmi eru um slíkt.

Það er velþekkt að íbúum ýmissa landa hefur kerfisbundið verið neitað um áritanir til ákveðinna landa.

Íbúar margra landa A-Evrópu þurftu t.d. að fá "heimboð" til að geta átt raunhæfar vonir á því að koma sem ferðamenn til Kanada lengi vel.  Þeir sem boðið sendu þurftu jafnvel að taka ábyrgð á viðkomandi ferðalangi á meðan dvöl hans í Kanada stóð.

Sjálfur sat ég eitt sinn brúðkaups Kanadabúa af ukraínskum uppruna þar sem foreldrar brúðarinnar voru ekki viðstaddir, þar sem þeim hafði verið neitað um vegabréfsáritun til Kanada.

Þá rétt eins og nú var Frjálslyndi (Liberal) flokkurinn við völd í Kanada.

Þetta var ekki gert af neinni sérstakri illgirni, heldur var álitið að einstaklingar frá þessum löndum væru líklegri en margir aðrir til að dvelja áfram í landinu.

Eins og fram kom við undirritun fríverslunarsamnings á milli Evrópusambandsins og Kanada, seint á síðasta ári,, höfðu rúmenskir og búlgarskir þegnar ekki rétt til að koma til Kanada án áritunar. (Ég þori ekki að fullyrða um hvort það hafi breyst).

Ríki hafa fullan rétt til að grípa til ráðstafana til að verja landamæri sín og stjórna flæði einstaklinga yfir þau.  Slíkt hefur færst mjög í vöxt undanfarin misseri.

Slíkt kann að vera mis skynsamlegt og mis árangursríkt.

Það er sjálfsagt og af hinu góða að mótmæla slíku og berjast fyrir auknu frjálsræði sem víðast.

En ég held að allir ættu að temja sér að gera slíkt með kurteisi og ákveðinni hófsemi.

Ofsi, dónaskapur og stóryrði leiða sjaldnast til sigurs.

Svo gott sem eina undantekningin sem ég man í fljótu bragði eftir, hvað það varðar, er sigur DJ Trump.

En ég held að það sé órökrétt að hafa það að leiðarljósi.

 


mbl.is Heimskulegur samningur segir Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar sigla hægt en örugglega úr "Sambandinu"

Ég tel að það hafi aldrei verið virkilegur vafi á því að úrsögn Breta yrði samþykkt í þinginu. Ég held að það hafi reyndar verið nauðsynlegt að þingið fjallaði um málið og sú umfjöllun byggir úrsögnina sterkari grunni.

Dómsúrskurðurinn styrkir þingið sömuleiðis sem er gott.

Ýmsir hafa gert mikið úr því að meirihluti þingmanna væri andsnúinn úrsögninni og því yrði niðurstaðan tvísýn.

Það er líklega rétt að margir þingmenn hefðu viljað greiða atkvæði á annan veg. En þeir gera sér grein fyrir því að þeir sitja í umboði kjósenda, og einmenningskjördæmi tryggja það samband en mörg önnur kerfi, þó að mörg rök megi setja fram um að þau þjóni lýðræðinu misjafnlega.

En þingmenn í einmenningskjördæmi eru líklegir til að lenda í vandræðum greiði þeir atkvæði gegn meirihluta kjósenda í jafn stóru máli og þessu.

Það er einnig næsta öruggt, að hefði þingið fellt úrsögnina, hefði verið boðað til kosninga.

Líklega er það að síðasta sem t.d. Verkamannaflokkurinn kærir sig um nú, enda flokkurinn illa tættur, bæði vegna Brexit og ekki síður stöðu formannsins.

Það er líklegt að ríkisstjórn May nái markmiði sínu, að segja Bretland frá Evrópusambandinu í mars næstkomandi.

Þá hefst málið fyrir alvöru ef svo má að orði komast.

Hver svo sem afstaða einstaklinga er, hygg ég að flestir séu sammála um að það verði fróðlegt og spennandi ferli sem kemur til með að reyna mikið á bæði Breta og ekki síður Evrópusambandið.

 

 


mbl.is Breska þingið samþykkir Brexit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband