Sjúklinga frekar til Amsterdam heldur en í Ármúlann?

Umræða um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu fer oft út á undarlegar brautir á Íslandi. Í raun ætti þetta að vera nokkuð sjálfsagt mál.

Það ætti auðvitað ekki að eiga að vera nokkuð sem alþingismenn hafa áhyggjur af, eða eyða kröftum sínum í.  Af nógu öðru er að taka sem þeir gætu notað starfskrafta sína til betrumbóta.

Auðvitað ætti það að vera í höndum Landlæknis en ekki ráðherra að ákveða hvort að sjúkrahús taki til starfa á Íslandi eður ei. Hvað þá að opnun slíks ætti að þurfa að kalla á umræður á Alþingi, eða í nefndum þess.

Nú þegar hafa hefur Alþingi samþykkt að Íslendingum sé heimilt að sækja sér heilbrigðisþjónustu víða um Evrópu. Hið opinbera greiðir fyrir slíka þjónustu til jafns og kostnaður við hana væri á Íslandi.  Kostnað umfram það greiða sjúklingar sjálfir.

Allt er það enda samkvæmt tilhögun innan Evrópska efnahagsvæðisins, samkvæmt lögum og reglugerðurm frá Evrópusambandinu.

Nú þegar er örlítið um að Íslendingar noti sér þann rétt, og líklega má reikna með því að slíkt muni aukast eftir því sem tímar líða.

Hví ætti það að vera erfiðara fyrir Íslendinga að sækja sér heilbrigðisþjónustu í Ármúlann en það er í Amsterdam?

Nú þegar sækja Færeyingar sér þjónustu í Ármúlann, hví skyldu Íslendingar ekki gera það sömuleiðis?

Sjúkratryggingar ættu að gera samning við Klíníkina á nákvæmlega sama grunni og gildir um heilbrigðisþjónustu á EEA/EES svæðinu, þar sem sjúklingur fær endurgreitt miðað við kostnaðargrunn á Íslandi.

Eftir allt saman þá er Ísland á því svæði.

Það væri óneitanlega nokkuð sérstakt ef heilbrigðisráðherra frá "Sambandssinnaflokknum" Bjartri framtíð, færi að neita Íslendingum um þann rétt innanlands, sem þeira njóta á EEA/EES svæðinu.

 

 

 


mbl.is Bíða eftir svari ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattalegt samkeppnishæfi - Ísland eftirbátur hinna Norðurlandanna

Það er mikið rætt um skatta, ekki bara á Íslandi heldur víðast hvar í veröldinni.  Og sýnist sitt hverjum.

Á meðan sumir sjá "hlaðborð" af skattamöguleikum sem aðeins þurfi að velja úr, eru aðrir sem vilja draga úr sköttum.  Fáa hef ég hitt sem tala um að þeir borgi alltof lága skatta.

Hvort sem vilji er til að hækka eða lækka skatta, er málinu til stuðnings gjarnan settur fram samanburður við önnur lönd, gjarna svokölluð samanburðarlönd.

Þá má sjá alls kyns töflur með skattprósentum og öðrum tölum. 

En í flestum tilfellum er eingöngu verið að bera saman prósentur. Það er hve há álagningar prósentan er.

En það sem skiptir meginmáli er auðvitað sjálft skattkerfið. Það er öllu flóknara að bera saman, enda skattalöggjöf jafnvel upp á tugi þúsunda síða í hverju landi um sig.

Það er enda ástæðan fyrir því að æ fleiri hámenntaðir sérfræðingar starfa við skatt framtöl.

En finna má á netinu samanburð á skattalegu samkeppnishæfi OECD landanna.  Það er Tax Foundation, bandarísk sjálfseignarstofnun (non profit), sem vinnur samanburðinn árlega.

Þegar litið er á málin frá þessum sjónarhól, sést önnur mynd en þegar einvörðungu er litið á prósentur.

Ísland er í 22. sæti og er t.d. á eftir öllum Norðurlöndunum í skattalegu samkeppnishæfi, þó að oft megi heyra að skattar á Íslandi eigi að hækka til jafns við hvað gerist á Norðurlöndunum.

Það má leyfa sér að efast um réttmæti þess, ef skattlegt samkeppnishæfi Íslands er mun lakara.  Svíþjóð er í 5. sæti, Noregur í 11., Finnland í 18. og Danmörk í því 20. Ísland kemur svo í 22. sæti eins og áður var nefnt.

Skýrsluna má finna hér.

Auðvitað á ekki að líta á skýrsluna sem hinn endanlega stóra dóm, ef svo má að orði komast.  En hún er fróðleg og gefur vísbendingar um hvar Íslendingar standa í skattamálum í samanburði við aðrar þróaðar þjóðir.

En skattamál eru flókin mál og skattkerfi landa getur hentað atvinnugreinum misvel. Ef til vill er ekki síst ástæða til þess að reyna eftir fremsta megni að einfalda skattkerfið.

Það gerir bæði skattlagningu og umræðu um hana einfaldari og markvissari.

P.S. Myndin hér að neðan er úr skýrslu Tax Foundation.

 

Tax foundation competi 2016

 

 


Er gengið of hátt, of lágt eða bara mátulegt?

Umræður um gengið eru nærri jafn algengar og um veðrið á Ísladni. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, enda miklir hagsmunir undir og gengið snertir alla og hefur áhrif á líf þeirra og afkomu.

Það eru því gjarnan skiptar skoðanir um hvað er "rétt" gengi, eða æskilegt.

Mikið hefur verið talað um upp á síðkastið að gengið sé of hátt, að krónan kosti of mikið og skerði möguleika útflutningsgreina og þeirra sem eru í harðri samkeppni við erlenda aðila.

Það er í sjálfu sér ekkert skrýtið að slík sjónrmið komi fram hjá aðilum í útflutningsgreinum, enda gerir styrking krónunar þeim vissulega erfitt fyrir, sérstaklega hvað samninga sem kunna að hafa verið gerðir all langt fram í tímann.

Styrkingin dregur verulega úr hagnaði þeirra og í sumum tilfellum getur komist nálægt því að þurka hann út.

En annað bendir til þess að gengið sé einfaldlega nokkuð mátulegt og ef til vill í lægri kantinum.

Eins og marg oft hefur komið fram í fréttum hefur erlend staða þjóðarbúsins ekki verið betri í áratugi, eða nokkurn vegin frá lokum seinna stríðs.

Viðskiptajöfnuður Íslendinga er í plús.

Vissulega verður að líta á viðskiptajöfnuð til lengri tíma en sé það gert á hann að sjálfsögðu að vera nálægt núllinu.  Heimsviðskipti eru í eðli sínu "zero sum" ef svo má að orði komast.

Hagvöxtur á Íslandi er mikill og atvinnuleysi í lægstu mörkum, þrátt fyrir mikinn innflutning á vinnuafli.

Ekkert af þessu bendir til að styrking krónunnar sé óeðlileg eða að hún sé of hátt skráð.

Auðvitað er ekki fyllilega að marka ástandið á meðan enn eru gjaldeyrishöft. En þau eru sem betur fer óðum að hverfa og vonandi heldur sú gleðilega þróun áfram.

Krónan hefur verið að veikjast nú eftir áramót. Þar kemur líklega til sögunnar aukið frelsi í gjaldeyrismálum, sjómannaverkfall og svo árstíminn.

Það er því ekki ótrúlegt að um frekari gengisbreytingar verði að ræða, en það er ekkert óeðlilegt þegar breytingar verða á markaði.

En það er ekki ástæða til þess að grípa til rótækra inngripa til að lækka gengið. Almenningur á skilið að njóta styrkingarinnar.

Fyrirtækin verða að leita hagræðingar og á slíkum tímum er ekki óeðlilegt að sameiningar og samstarf aukist.

Fyrirtækin leita jafnframt framleiðniaukningar. Þess má þegar sjá merki í fjölda nýrra fiskiskipa sem eru á leið til Íslands. Útgerðarfyrirtæki hafa notað hagstæða tíma til að fjárfesta, sem vonandi leiðir til aukinnar framleiðni og gerir þeim kleyft að takast á við erfiðara rekstrarumhverfi.

Einhverjir munu sjálfsagt hellast úr lestinni, en það lítur út fyrir að það séu aðrir til að "taka upp slakann".

 

 

 

 


mbl.is Gengisstyrking afleiðing hrunsins, ekki orsök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að gefa gjafir og að upplýsa en ekki sakfella

Þetta er að ýmsu leyti býsna merkileg frétt þó að hún sé ekki stór.

Trúarriti er haldið að börnum.  Er eitthvað rangt við það?  Ég sé að ýmsum þykir of langt gengið þegar skóli ákveður að láta foreldra vita af þessu.

Ég er ekki sammála því og mér þykja viðbrögð skólans að ýmsu leyti til fyrirmyndar.

Vissulega er ekkert saknæmt við það að bjóða börnum að þiggja trúarrit að gjöf. En í sjálfu sér er hægt að segja það sama um sælgæti, hasarblöð og flesta aðra hluti.

Skólinn hefur enga lögsögu utan skólalóðar og lögregla getur ekkert gert nema lögbrot sé framið, þó að hún geti kannað kringumstæður.

Enda get ég ekki skilið fréttina svo að skólinn sé að kalla eftir aðgerðum. Hann hefur einfaldlega látið foreldra vita. Þeir geta þá í framhaldinu rætt málið við börn sín og mælt með hvernig þau bregðast við.

Hreint til fyrirmyndar af hálfu skólans, að mínu mati. Hann veitir upplýsingar en sakfellir ekki eða kallar eftir aðgerðum lögreglu.

Staðreyndin er sú að það er engin ástæða fyrir kristið fólk að voma í kringum skólalóðir og bjóða upp á trúarrit, ekki frekar en nokkur önnur trúarbrögð.

Það vantar ekki aðstöðu til samkomuhalds, kirkjur eru í svo gott sem hverju hverfi og hægur vandi að auglýsa samkomu fyrir ungmenni og að boðið verði upp á ókeypis trúarrit.

Það væri enda í anda þess sem eignað er Jesú, leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það ekki.  Aldrei man ég eftir því að talað hafi verið um að hann mælti með því að setið væri fyrir þeim.

P.S. Það er að mínu mati óttalega leiðinlegur blær yfir því að sitja fyrir krökkum á leið heim úr skóla. Engum til sóma.

Ég get sömuleiðis ímyndað mé að viðbrögð margra ef um önnur trúarbrögð væri að ræða.


mbl.is Býður börnum Nýja testamentið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin markaðslausn hjá Viðreisn - Sænska þingið setur kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja til hliðar.

Það virðist nokkkuð ljóst að Viðreisn (og núverandi ríkisstjórn) treystir markaðnum ekki til þess að greiða starfsfólki laun eins og það á skilið - alla vegna ekki út frá kynlegu sjónarmiði.

Þar verður "mamma ríkið" að koma til sögunnar.  Þó er að þeirra mati ennþá í lagi að í fámennum fyrirtækjum sé einhver "markaðsmismunun".

Það verður fróðlegt að sjá hvað þessi íþyngjandi "tímabundna lagasetning" (hefur einhver heyrt slíkt áður frá ráðherra?) kemur til með að kosta fyrirtækin og hver muni sjá um vottunina.

Það getur vissulega orðið svo að einhver fyrirtæki fresti því að ráða 25. starfmanninn eins lengi og mögulegt er, vegna þess að þau telji að hann verði fyrirtækinu "dýr".

Það er sömuleiðis spurning hvort að fyrirtæki sem hafa aðeins annað kynið í vinnu séu undanþegin vottuninni?

Slíkt gæti verið hvati til "kynhreinna" vinnustaða.

En það er ekki ólíklegt að markaðurinn finni leið til að aðlaga sig að þessari íþyngingu eins og öðrum sem ríkið setur. Það gerist yfirleitt þó að það taki tíma.

Það er heldur ekki eins og búið sé að fullnýta hugmyndaflugið hvað varðar starfsheiti og titla.

Það má geta þess hér að lokum að samkvæmt frétt Reuters hefur sænska ríkistjórnin (sem er minnihlutastjórn) hætt við að leggja fram frumvarp um 60/40 kynjakvóta í stjórnum þarlendra fyrirtækja.

Ástæðan fyrir því er að ljóst var að þingið myndi ekki samþykkja frumvarpið.

En á Íslandi þurfa ráðherrar ekki að eiga von á neinum slíkum bakslögum.

Enda er á Íslandi, ef marka má orð stjórnarandstöðunnar, nýtekin við "harðsvíruð frjálshyggjustjórn".

 

 

 

 


mbl.is Vottað á þriggja ára fresti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðuneyti í kosningabaráttu?

Fyrrverandi fjármálaráðherra (frá og með deginum í dag) hefur setið undir býsna hörðum ásökunum fyrir að hafa ekki opinberað skýrslu um aflandsfélög tengd Íslandi og Íslendingum sem borist hafið Fjármálaráðuneytinu fyrir kosningar.

Að sumu leyti á þessi gagnrýni fullan rétt á sér og að öðru leyti ekki. Eins og oft  eru fæst málefni svört eða hvít.

Það er hins vegar alveg ljóst að ef ráðuneyti gæfi út skýrslur stuttu fyrir kosningar þar sem ráðstafanir sitjandi ríkistjórnar kæmu út í hagstæðu ljósi, yrði það ekki síður gagnrýnt.

Þá þætti það ljóst að ríkisstjórn væri að nota almannafé til þess að kosta hluta kosningabaráttu sinnar.

Stjórnarandstaðan væri, eðlilega, ekki ánægð með slíkt.

Þetta vandamál er að sjálfsögðu ekki bundið við Ísland.

Þess vegna hafa, td. í Bretlandi, verið sett lög þar sem ráðuneytum er bannað að gefa út skýrslur eða annað efni all nokkrum vikum fyrir kosningar.  Þar um slóðir er það kallað purdah.

Ef til vill væri ekki úr vegi fyrir Alþingi Íslendinga að samþykkja reglur í þá átt.

Þagnartímabil ráðuneyta gæti t.d. verið 4. eða 6 vikur.

 

 


Hvaðan koma "falskar fréttir"?

Það hefur mikið verið rætt um "falskar fréttir" undanfarnar vikur. Það má ef til vill segja að "falskar fréttir" séu af fleiri en einnar gerðar.

Ein tegund, og hún er vissulega verulega hvimleið, er hreinlega uppspuni frá rótum, oft um þekktar persónur, en einnig um "undarlega" atburði eða svokallaðar "samsæriskenningar".

Oft eru slíkar fréttir eingöngu settar fram til að afla "smella" og þannig höfundum þeirra tekna.  Slíkt var nokkuð algengt fyrir nýafstaðnar forsetakosningar í Bandaríkjunum. Mikið af "fréttunum" mátti rekja til ungs fólks í A-Evrópu og Balkanskaga sem aflaði sér umtalsverðra tekna með þeim.

Þó að fréttirnar séu misjafnar að gerð, eru margar þeirra þess eðlis að lesendum reynist ekki erfitt að gera sér grein fyrir því að trúverðugleikinn sé ekki mikill, þó að fyrirsögnin hafi verið þess eðlis að freistandi væri að skoða málið nánar.

Afbrigði af þessu má sjá víða, þar á meðal á íslenskum miðlum, en oftar er þó látið nægja að veiða með fyrirsögn, sem er tvíræð, eða leynir því hvort að um íslenska eða erlenda frétt er að ræða, en beinar "falsanir" eru lítt þekktar (nema ef til vill þegar þær eru teknar beint úr erlendum miðlum).  Músasmellir eru peningar.

En fréttir þar sem "sérfræðingar" láta gamminn geysa hafa líka aukist stórum undanfarin ár. Þar má oft lesa stórar fullyrðingar og vafasamar spár sem án efa eru mikið lesnar, en reynast oft hæpnar og beinlínis rangar.

Af þessum meiði eru t.d. þær spár frá Englandsbanka sem er fjallað um í viðhengri frétt. Þær spár fengu að sjálfsögðu mikið pláss í fjölmiðlum. Slíkt enda ekki óeðlilegt.

Spá breska fjármálaráðuneytisins af sama tilefni hefur einnig þótt langt frá lagi og verið harðlega gagnrýnd. Slíkar fréttir sem áttu margar uppruna sinn innan stjórnkerfisins voru sameiginlega kallaðar "project fear".  Þegar starfsmenn fjármálaráðuneytisins hafa reynt að klóra í bakkann eftir á, hefur komið fram að ein af forsendum útreikninganna hafi verið að Englandsbanki myndi ekki grípa til neinna ráðstafanna, yrði Brexit ofan á í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Geri nú hver upp við sig hversu líklegt væri að Englandsbanki brygðist á engan hátt við?

Það er rétt að það komi fram að þeir sem börðust fyrir jái, í Brexit atkvæðagreiðslunni gerðu sig einnig seka um að kasta fram ýmsum fullyrðingum, sem voru í besta falli misvísandi og reynast ekki réttar séu allar forsendur teknar með í reikninginn. Einhverra hluta vegna hafa þær þó fengið mun meiri athygli en fullyrðingar þeirra sem börðust fyrir nei-i.

Það má ef til vill að hluta til útskýra með því að það sé síður ástæða til að staðreyndareyna fullyrðingar þeirra sem bíða lægri hlut. En það er ekki eftir að úrslitin eru ljós sem slíkar fullyrðingar hafa áhrif, heldur í kosningabaráttunni.

Íslendingar þekkja ágætlega af eigin raun "fréttir" af slíkum toga. Hvað skýrast komu þær fram í Icesave deilunni, þar sem flestir fjölmiðlar voru fullir af "sérfræðingum" og öðrum álitsgjöfum sem kepptust um að lýsa þeim hörmungum sem myndu dynja á Íslendingum ef samningarnir yrðu ekki samþykktir.

Hvort við segjum að skoðanir "sérfræðinganna" hafi reynst rangar (falskar) eða að fréttirnar hafi verið það er líklega skilgreiningaratriði.

En það er ljóst að fjölmiðlarnir gerðu ekkert til þess að staðreynda kanna fullyrðingarnar, enda ef til vill erfitt um vik, því mér er ekki kunnugt að mikil rök hafi fylgt þeim.

Hvort skyldi svo vera hættulegra lýðræðinu, uppspuni unglinga í A-Evrópu og Balkanskaga eða "fimbulfamb" svo kallaðra "sérfræðinga"?

En eitt er víst að hvort tveggja framkallar músasmelli.

Þriðju uppspretta "falskra frétta" sem nefna má (þær eru vissulega fleiri) eru fréttastofur sem kostaðar eru af stjórnvöldum hér og þar í heiminum.

Ýmsar einræðisstjórnir (eða næstum því einræðisstjórnir) sjá sér vitanlega hag í því að fréttir séu sagðar út frá þeirra sjónarmiðum og hagsmunum.

Slíkt er orðið tiltölulega einfalt og hefur internetið gert alla dreifingu auðveldari og jafnframt ódýrari.

Á meðal slíkra stöðva má nefna sem dæmi RT og Sputnik sem eru kostaðar af Rússneskum stjórnvöldum og svo fréttastöðvar frá Kína, N-Kóreu og fleiri löndum.

Hér og þar á Vesturlöndum má verða vart við vaxandi áhyggjur af slíkum miðlum og æ ákafari áköll um að hið opinbera skerist í leikinn og reki "gagnmiðla" og skeri upp herör gegn ósannindum og "fölskum fréttum".

Persónulega er ég þeirrar skoðunar að góðir og öflugir fjölmiðlar verði seint ofmetnir.

Það er því ótrúlegt ef þeirri skoðun vex stöðugt fylgi að að hinir öflugu fjölmiðlar á Vesturlöndum fari halloka gegn miðlum "einræðisríkjanna".

Ef svo er hljótum við að spyrja okkur að því hvernig stendur á því að þeir hafi tapað svo miklu af trúverðugleika sínum?

Ef það er raunin.

En ég hef líka miklar efasemdir um "sannleiksdómstól" hins opinbera, ég held að slíkt geti aldrei talist lausn. Þó er víða kallað eftir slíku og beita þurfi sektargreiðslum gegn miðlum sem slíkt birta.

Með slíkum rökum hefðu íslenskir miðlar líklega verið sektaðir fyrir að birta fleipur "sérfræðinga" sem fullyrtu að Ísland yrði eins og N-Kórea eða Kúba norðursins.

Það er engin ástæða til þess að feta þann veg.

Það er hins vegar næsta víst að fjölmiðlar muni um ókomna framtíð birta fréttir sem reynast rangar (sumir vilja meina að nokkuð hafi verið um það nú, af stjórnarmyndunarviðræðum) og alls kyns vitleysa líti dagsins ljós. Það er sömuleiðis næsta víst að einhverjir fjölmiðlar sleppa því að birta einhverjar fréttir þegar það hentar ekki einhverjum sem þeir styðja.  New York Times baðst nýverið afsökunar á slíku. CNN rak fjölmiðlamann sem lak spurningum til forsetaframbjóðenda.

Fjölmiðlar hafa aldrei, eru ekki og munu líklega aldrei verða fullkomnir.

Þess vegna eigum við öll að lesa eins marga af þeim og við komumst yfir og höfum tíma til. Það er líka æskilegt að við látum í okkur heyra ef okkur er misboðið.

En ég held að engin lausn felist í því að ríkisvæða "sannleikann", eða að koma á fót "fréttalögreglu".  Sektir fyrir rangar fréttir munu ekki heldur leysa vandann.

En við þurfum að gera okkur grein fyrir því að fréttir eru ekki alltaf réttar, þær eru líka sagðar frá mismunandi sjónarhornum.

Ef 20 manns horfa á sama atburðinn, er líklegt að lýsingar þeirra séu býsna mismunandi, jafnvel hvað snertir það sem talið væri grundvallaratriði.

Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að "sérfræðingar" hafa skoðanir.

 


mbl.is Hafði rangt fyrir sér um áhrif Brexit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efnahagsmálaráðherra Þýskalands: Við högnumst mest á Evrópusambandinu, efnahagslega og pólítískt.

Nýlega mátti lesa að Joseph Stieglitz teldi allt eins líklegt að euroið myndi "brotna upp", jafnvel á þessu ári.

Hvort að sá spádómur eigi eftir að rætast eigum við eftir að sjá, og sjálfsagt mun ráða mestu þau ráð sem Seðlabanki Eurosvæðisins mun beita.

En nú eftir áramótin mátti lesa, haft eftir efnahagsmálaráðherra Þýskalands, Sigmar Gabriel, að það væri alls ekki óhugsandi að Evrópusambandið sjálft myndi heyra sögunni til, þó að vissulega sé það svo að það er alls ekki það sem hann myndi vilja, eða stefni að.

En jafnframt má lesa eftir honum haft (hann mun hafa sagt þetta í viðtali við Der Spiegel, en það hef ég ekki séð, eingungis frétt Reuters um það), að komandi kynslóðir Þjóðverja muni seint fyrirgefa núverandi valdhöfum ef svo far, því Þýskaland sá það ríki sem hagnist mest á Evrópusambandinu, bæði efnahagslega og pólítískt.

Persónulega held ég að Sigmar Gabriel fari þarna með rétt mál, þó að vissulega sé sjaldgæft að sjá nútíma pólítíkusa tala svo hreinskilnislega.

En eitt af stóru vandamálum Evrópusambandsins, og sérstaklega Eurosvæðisins, hefur einmitt verið hve Þýskalands hagnast, en önnur ríki hafa borið skarðan hlut frá borði, ef til vill sérstaklega Suður-Evrópuríkin.

Þau hafa hægt og rólega tapað samkeppnishæfi sínu, á meðan Þýskaland hefur notið met afgangs á vöruskiptajöfnuði.

Þar nýtur Þýskaland tengingar gjaldmiðils síns við lönd í efnahagslegum erfiðleikum, og má segja að gjaldmiðill Þýskalands sé "sígengisfelldur", án efnahagslegrar ástæðu.

Þetta hefur ennfremur leitt til minnkandi atvinnuleysis í Þýskalandi, þrátt fyrir aukin innstreymi innflytjenda, á meðan atvinnuleysi í öðrum löndum hefur rokið upp (hér er ekki tekið tillit til þeirrar innflytjendasprengingar sem varð á síðastliðnum tveimur árum til Þýskalands, aðallega frá N-Afríku, eftir að landamærin voru opnuð, fæstir þeirra hafa atvinnu, en eru ekki taldir með í atvinnuleyistölum).

Þetta þekkja allir sem fylgjast með fréttum.

Vissulega má segja að ekki sé eingöngu hægt að kenna Þjóðverjum einum um hvernig mál hafa skipast. Önnur ríki hafa oft á tíðum tekið rangar ákvarðanir og látið ríkisrekstur sinn bólgna út, í staðinn fyrir umbætur á vinnumarkaði og í opinbera kerfinu eins og Þjóðverjar framkvæmdu.

En það er einmitt vandamál Eurosvæðisins, það haga sér ekki allir eins og Þjóðverjar.  Og euroið hefur ekki reynst "ein stærð sem hentar öllum", þrátt fyrir loforð þar að lútandi.

 


Af lekum og lekendum

Sú deila, sem á köflum er býsna farsakennd, sem geysar um hver hafi brotist inn í tölvukerfi tengd Demókrataflokknum í Bandaríkjunum vekur upp ýmsar spurningar.

Flestum þeirra er ekki auðvelt að svara, en margar þeirra eru þess eðlis að það er vert að gefa þeim gaum, velta þeim aðeins fyrir sér - alla vegna að mínu mati.

Ein af spurningunum er: Skiptir það máli hver lekur, hver er "lekandinn"?

Á ekki meginmálið ætíð að vera efni lekans? Og þá jafnframt spurningin á efni lekans erindi við almenning?

Hefðu Íslendingar litið öðruvísi á innihald "Panamaskjalanna" eftir því hver lak þeim?

Skiptir ekki innihaldið meginmáli?

Það segir sig einnig sjálft að það hlýtur að vera óraunhæf krafa að "lekendur" gæti jafnvægis í lekum sínum. Þá skiptir engu máli hvort að um sé að ræða tvísýnar kosningar eða aðra atburði eða kringumstæður.

"Lekendur" hljóta einfaldlega að miðla því efni sem þeir hafa komist yfir.

Önnur hlið er svo að ef viði viljum meina, eins og margir gera nú, að Wikileaks sé ómarktæk upplýsingaveita, og sé handbendi Rússa, getum við litið sömu augum á fyrri upplýsingaleka þeirra?

Er Wikileaks einfaldlega eitt af áróðurstólum Pútins og Rússa? Er það tilviljun að Snowden kýs að halda sig í Rússlandi?

Við engum þessum spurningum er til hrein og bein svör.  Alla vegna ekki fyrir okkur sem búum ekki yfir neinum "innherjaupplýsingum".

Hitt er löngum vitað að leyniþjónustur flestra ríkja njósna um andstæðinga og einnig samherja. Hvernig þær kjósa að nýta sér þær upplýsingar sem þannig er aflað er annar handleggur og vissulega eru til ýmis dæmi um leka sem erfitt hefur verið að rekja.

En það er líka rétt að hafa í huga að leki um að reglur og gott siðferði hafi verið haldnar vekja yfirleitt litla athygli.

Það er jú innihald lekanna sem vekur athygli.

 

 


mbl.is Háttsettir vitna gegn Rússum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurlæging Sjálfstæðisflokksins?

Ég verð að viðurkenna að mér líst engan veginn á að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar taki við völdum á Íslandi.

Ekki síst ef marka má þá "leka" sem heyrst hafa af viðræðunum.

Ef marka má það sem heyrst hefur felur stjórnarmyndunin í sér niðurlægingu Sjálfstæðisflokksins, sem virðist teygja sig alltof langt til að mynda stjórn sem á sér takmarkaða möguleika til að sitja út kjörtímabilið.

Stjórn sem er ekki sammála um atriði eins og t.d. sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, peningakerfi, afstöðu til Evrópusambandsins og/eða þjóðaratkvæðagreiðslu þar um og hefur aðeins eins þingmanns meirihluta virkar einfaldlega eins og að hún sé ekki á vetur setjandi.

Gefi Sjálfstæðisflokkurinn of mikið eftir í þessum málaflokkum er það einfaldlega niðurlæging fyrir hann og formanns hans.

Það getur varla gengið að mynda stjórn um pólítískan ómöguleika, eða hvað?

Sé það jafnframt rétt að Sjálfstæðisflokkurinn fái einungis helming ráðuneyti í sinn hlut, 5 á móti 5, þrátt fyrir að hafa 2/3 þeirra alþingismanna sem stæðu að baki slíkri ríkisstjórn, er það enn frekari niðurlæging.

Réttari skipting væri að Sjálfstæðisflokkurinn fengi að lágmarki 6 af 10 ráðherrum, nema að skiptingin væri sú að í hans hlut kæmi Forsætisráðuneytið, Fjármálaráðuneytið og Utanríkisráðuneytið.

Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn sé í feigðarför með myndun slíkrar ríkisstjórnar.

 


mbl.is Funda áfram um stjórnarmyndun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurlegir aðgerðarsinnar

Ég fyllist alltaf depurð þegar ég horfi á skemmdarverk eins og voru unnin á kirkjum norður á Akureyri nú.

Þó vita líklega flestir sem hafa átt leið um þetta blogg að ég er ekki "kirkjunnar maður". Þvert á móti hef ég oft skrifað hér um þörfina á því að skilja á milli ríkis og kirkju og að þeir sem ekki eru "kirkjunnar menn" séu leystir undan þeirri ánauð að standa undir rekstri hennar.

En skemmdarverk eru ekki réttu verkfærin í þeirri baráttu, rétt eins og gildir um þær flestar.

Jafn sjálfsagt og það er að berjast á móti forréttindum þjóðkirkunnar, eða ef svo ber undir trúarbrögðunum sjálfum, eru skemmdarverk af þessu tagi ekki rétta leiðin.

Það er alltaf jafn dapurlegt að einhverjir skuli grípa til slíkra aðgerða.

En aðgerðarsinnar hafa vissulega notið vaxandi samúðar víða um íslenskt samfélag undanfarin ár, jafnvel innan þjóðkirkjunar.

En það er þetta með að lög skuli gilda, og jafnvel að gjalda skuli keisaranum það sem keisarans er.

 

 

 

 


mbl.is Skemmdarverk unnin á kirkjum á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skaup í meðallagi

Gaf mér loks tíma til þess að horfa á hið íslenska Áramótaskaup nú í dag.  Hafði af því þokkalega skemmtun.

Brosti annað veifið en get ekki sagt að ég hafi hlegið svo eftirtektarvert hafi verið.

En fjölskyldan segir reyndar að það sé erfitt að fá mig til að hlægja upphátt.

En skaupið var í meðallagi gott, ekkert til að kvarta yfir, en ekki ástæða til sérstakst hróss heldur.

Á því eins og stundum áður nokkur pólítísk slagsíða.

Ef til vill ekki við öðru að búast þegar fyrrverandi stjórnmálamaður er leikstjóri.

Enda ef marka má skaupið gerðist ekkert sem grín gerandi er að í Reykjavíkurborg á liðnu ári.

En það er auðvitað ekki hægt að gefa stjórnendum Reykjavíkur neitt pláss í Skaupinu.  Þeir myndu þá líklega fylla það á komandi árum.

 

 


Gleðilegt nýtt ár - þakka það sem liðið er

Ég tók mér hlé frá bloggskrifum yfir jól og áramót. Naut lífsins og letinnar.

En ég vil nota þessa fyrstu færslu á nýju ári til þess að óska öllum nær og fjær gleðilegs nýs árs og vona að gæfan verði þeim samferða á nýja árinu.

Þakka jafnframt allt það sem liðið er og öllum þeim sem sett hafa kurteislega orðaðar athugasemdir hér við bloggið.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband