Íslendingar kæra sig ekki um "Sambandið"

Í 7 ár eða svo hafa allar skoðanakannanir sýnt að meirihluti Íslendinga vill ekki ganga í Evrópusambandið.

Það er vel.

Enn er þó hluti þjóðarinnar sem á sér enga ósk heitari en að leiða Íslendinga "inn í brennandi hús", svo notað sé líkingamál eins þeirra einstaklinga sem hvað ákafast hvatti til aðildar, en hefur nú skipt um skoðun, alla vegna tímabundið.

Ekki fyrir all löngu var jafnvel stofnaður nýr stjórnmálaflokkur sem hefur þetta á meðal sinna helstu stefnumála, þó að forsvarsmenn hans tali gjarna undir rós um "alþjóðlega eða vestræna samvinnu".

Enn aðrir vilja ekki að Ísland gangi í "Sambandið" en vilja endilega standa í viðræðum um aðild við það. Þekktastir þeirra eru líklega þingmenn Vinstri grænna sem stóðu í ræðustól Alþingis og lýstu yfir andstöðu sinni við aðild, og stórkostlegum göllum "Sambandsins" en enduðu ræður sínar á því að segja já við að sækja um aðild að sama "Sambandi".

Slíkum "köttum" er ekki erfitt að smala, ef "rjómaskálin" er innan seilingar.

Staðreyndin er sú að "Sambandið" er æ minna aðlaðandi kostur fyrir Íslendinga.

Þeir eru líklega fáir sem vilja afhenda stjórn fiskveiðiauðlindarinnar til Brussel og vandræði "Sambandsins" blasa við öllum, rétt eins og þau hafa gert undanfarin 8 ár eða svo.

Euroið er eins og fleygur á milli aðildarríkjanna, og bankakerfið er að verða ein taugahrúga eftir 8 ár á brúninni. Seðlabankinn heldur þó batteríinu gangandi með því að prenta sífellt meira af peningum, kaupa æ fleiri skuldabréf, bæði af ríkisstjórnum og fyrirtækjum. Bankastjóri Credit Suisse lét hafa eftir sér nýlega að evrópska bankakerfið (sem heild) væri ekki vænlegur fjárfestingarkostur.

Og "Sambandið" á milli ríkja.

Ítalía hreytir ónotum í Þýskaland, Austurríki hreytir ónotum í Ungverjaland, Írland er skotspónn vegna skattasamninga og vill ekki taka við öllum þeim sköttum sem "Sambandið" telur að það eigi að innheimta, Póllandi er hótað rannsókn á "vegferð" sinni, og Grikkland er að þrotum komið eftir samfellda 6 ára aðstoð "Sambandsins". Bara svo nokkur dæmi séu nefnd.

Stöðugur straumur flóttamanna og sú staðreynd að "Sambandið" hefur á tíðum misst stjórn á ytri landamærum sínum, hefur orðið til þess að ríki ýmist byggja æ voldugri múra eða galopna landamæri sín á köflum.

Engin virðist vita til hvaða bragðs skuli taka og hver höndin (eða landið) á móti annari, ef til vill ekki að undra, því kringumstæður að sjálfsögðu afar mismunandi.

Mismunandi "hagsmunahópar" innan "Sambandsins" eru orðnir það margir að erfitt er að halda tölu á.

State of the union junckerTil að kóróna þetta allt saman er svo einstaklingurinn sem byggði Luxembourg upp sem "lágskattaparadís", ef ekki skattaskjól, forseti Fram- kvæmdastjórnar Evrópusam- bandsins og lítur á sig sem óopinberan forseta þess og leiðtoga.

Til þess að þjappa sér betur saman er helsta lausnin nú, að þurfi að koma á laggirnar sameiginlegum her. Ef til vill er skýringin á því sú, að það er nokkurn veginn eini vettvangurinn sem getur fengið Frakka til þess að líta vel út, því þegar Bretar munu yfirgefa "Sambandið" er Frakkland eina herveldið sem eitthvað kveður að innan þess. 

Þar geta Frakkar sannarlega kennt Þjóðverjum lexíu, og ef til vill lánað þeim nokkra "famas" í stað kústskaftanna sem hluti Þýska hersins hefur þurft að æfa sig með undanfarin ár.

Þegar spurt er hvers vegna Ísland ætti að ganga í "Sambandið" eru svörin yfirleitt frekar fátækleg. Mest er talað um að nauðsyn sé á því að fá "sæti við borðið".

Margir tala einnig um lækkun vöruverðs (vegna niðurfellingar tolla) þá sérstaklega matvælaverðs. Það er þó merkilegt að "vörukörfur" sem Hagstofa "Sambandsins" mælir, hafa verið ódýrari á Íslandi en í nágrannalöndunum, þó að ef til vill muni það breytast nú þegar íslenska krónan er að styrkjast, en flestar myntir innan "Sambandsins" að veikjast. Hitt er svo að að sjálfsögðu geta Íslendingar ákveðið að lækka tolla án þess að ganga í Evrópusambandið, rétt eins og núverandi ríkisstjórn gerði með tolla á fatnað, sem mun skila sér í mun betri íslenskri verslun.

Einnig er talað um á stundum hvað mikið væntalegir íslenskir styrkþegar, s.s. bændur, vísindamenn, og fleiri muni bera úr býtum.

Flestum er þó ljóst hve mikil firra það er, því allir útreikningar segja að framlag Íslands yrði hærra en það sem til Íslands bærist, þannig að næstum öllum er ljóst hvaðan þeir peningar kæmu: Frá íslenskum skattgreiðendum, með millilendingu í Brussel þar sem klipið yrði af þeim.

Því miður er ekkert sem bendir til annars en að "Sambandsaðild" verði nokkuð fyrirferðarmikil í íslenskri umræðu, nú sem fyrr.

Enn eru þeir ótrúlega margir sem spyrja: Evrópusambands Ísland, hvenær kemur þú?

 


mbl.is Meirihlutinn vill sem fyrr ekki í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin ástæða til þess að halda í úrelta lagabókstafi

Það er nákvæmlega engin ástæða til að skylda sveitarfélög til þess að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur eða önnur tilbeiðsluhús.

Því er þetta frumvarp fagnaðarefni.

En það er heldur ekki ástæða til þess að banna slíkt, og ef ég skil rétt gerir þetta frumvarp ekki ráð fyrir því.

Eftir sem áður geta kjörnir fulltrúar í stjórnum sveitarfélaga ákveðið að gefa lóðir undir tilbeiðsluhús, ef þeim svo sýnist og samþykkja.

En þá verður það á valdsviði viðkomandi stjórna, sem svo aftur þurfa að standa kjósendum skil á gjörðum sínum.

Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt.


mbl.is Vilja afnema lög um kirkjulóðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misvísandi skoðanakannanir

Í síðustu færslu (í gær) hér skrifaði ég að við þær kringumstæður sem ríktu gæti enginn flokkur látið sig dreyma um að ná jafnvel 30% fylgi í komandi kosningum.

Þá birtist auðvitað könnun þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er með 35%.

Það er mikill munur frá könnun MMR sem birtist í gær (og var tengd áðurnefndum skrifum) þar sem flokkurinn var með rétt ríflega 20%.

Í raun of mikill munur til að báðar kannanirnar gefi rétta mynd.  Því þó að tímabilið og lengdin sé mismunandi, er ekki hægt að sjá neitt að mínu mati sem ætti að skýra slíka fylgisbreytingu.

Persónulega hallast ég að því að MMR könnunin gefi réttari mynd, þó að hún kunni ef til vill ekki að vera sú rétta.  En mér hefur oft þótt Fréttablaðskannirnar nokkuð "villtar".

Svarhlutfallið í þessari könnun er fremur lágt, í kringum 50% og flokkur sem hefur  "traust" fylgi gætið komið betur út en efni standa til við slíkar kringumstæður.

En þessi könnun hlýtur að kæta Sjálfstæðifólk, en jafnframt senda hroll niður hryggjarsúlur Samfylkingarfólks.

En það verður fróðlegt að sjá hvernig staðan verður hjá Gallup sem líklega birtir nýjan þjóðarpúls eftir fáa daga.

 


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærstu flokkarnir aldrei verið smærri

Á ýmsan máta er þetta athyglisverð könnun. Ég held að ég geti fullyrt (þó að ég hafi ekki tölulegar rannsóknir) að stærstu flokkarnir hafi aldrei verið smærri (alla vegna í langan tíma) en í þessari könnun.

Tveir flokkar rétt yfir 20% og svo nokkrir sitthvoru megin við 10% og svo annar hópur undir 5%.

Að ýmsu leiti má segja að þetta sé tilbrigði við stef sem er að spilast víðsvegar um heiminn, en þó sérstaklega í Evrópu.

"Hefðbundnir valdaflokkar" eiga undir högg að sækja og stjórnmálin eru að "sundrast" ef svo má að orði komast.

Þetta má sjá með tilbrigðum í löndum eins og Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi, Frakklandi, Finnlandi, Spáni, Portúgal, Hollandi, Ítalíu, Grikklandi, svo aðeins nokkur dæmi séu nefnd.

Í Bretlandi hylur einmenningskjördæmafyrirkomulagið (frábært orð) þessi einkenni, sem þó komu einstaklega vel ljós í síðustu kosningum til Evrópusambandsþingsins, þar sem UKip vann eftirminnilegan sigur.

Í Bandaríkjunum má einnig sjá þess nokkur merki, enda líklega fá ef nokkur dæmi þess að frambjóðendur utan stóru flokkana njóti sambærilegs fylgis og nú (það eina sem mér dettur í hug sem væri sambærilegt er þegar Ross Perot í raun tryggði Bill Clinton sigur).

En aftur að könnuninni.

Engin flokkur virðist geta látið sig dreyma um að ná nálægt 30%, jafnvel 25% þætti gott við þessar kringumstæður.

Sjálfstæðisflokkurinn á undir högg að sækja, undanfarnar vikur hafa verið honum erfiðar. Prófkjör flokksins gáfu fjölmiðlum (og óánægðum félagsmönnum) höggstað og því ekki með öllu óeðlilegt að hann láti undan síga.

Píratar láta einnig undan síga (þó að vissulega væri það meira en  frábær árangur fyrir þá að verða stærsti flokkurinn, ef þessi úrslit stæðu), og það hlýtur að vera flokknum nokkurt áhyggjuefni að hann sígur jafnt og þétt niður á við. Eftir því sem flokkurinn hefur fengið meiri athygli, hefur fylgið sigið niður á við. Það er erfitt að segja annað en að það hafi verið að nokkru verðskuldað, Píratar hafa ekki risið undir athyglinni. Prófkjörin hafa ekki skilað neinu jákvæðu til flokksins og persónulega verð ég að segja stefnumálin sem ég hef helst séð, gera Pírata ákaflega óaðlaðandi.

Viðreisn er í þessari könnun þriðji stærsti flokkurinn. Líklega má þakka það afar vel heppnaðri kynningarstarfsemi hjá flokknum sem hefur náð að kynna sig afar vel í kringum uppröðun á framboðslista. Slík velgengni á þessu stigi getur verið afar mikilvæg, dregur kjósendur og sjálfboðaliða að flokknum og ef vel tekst til getur lagt grunninn að góðum sigri.

Það má heldur ekki líta fram hjá þeirri staðreynd að íslenskir kjósendur virðast um þessar mundir vera í sífelldri leit að einhverju nýju, næstum hverju sem er.

Mesta hættan sem blasir við er að kjósendur eru að mestu leiti andsnúnir aðild að Evrópusambandinu, þannig að ef andstæðingum tekst að tengja það við Viðreisn, sem og hlutdeild samtaka atvinnulífsins á framboðslistum, gæti Viðreisn fatast flugið.

Ég hygg að margir hafi orðið hissa á því að Framsóknarflokkurinn sé fjórði stærsti flokkurinn í þessari könnun.  Ef til vill er það enn ein sönnunin á því að allt umtal er betra en ekkert umtal.  Gott eða slæmt.

Það er þó alls endis óljóst hvernig spilast úr formannskosningu flokksins og "hnífsstungurnar" sem þar verða veittar gætu orðið alltof stórar til þess að náist að plástra þær fyrir kosningar.

En þessi könnun segir að frammarar eigi sjens. Barátta Sigmundar til að halda formannsembættinu hefur ekki dregið úr fylgi flokksins, þvert á móti.

Vinstri græn síga niður á við. Það kemur mér ekki á óvart, enda hafa framboðslistarnir verið að líta dagsins ljós og það er ekki beint hægt að segja að þeir séu til þess fallnir að draga fylgi að flokknum. Það verður þó að taka með í reikninginn að ég get varla talist óhlutdrægur aðili í þeim athugunum.

Samfylkingin er enn í tómu tjóni, 6. stærsti flokkurinn, enn minni en VG og svo langt síðan flokkurinn var yfir 10% að margir eru líklega búnir að gleyma því að flokkurinn hafi einus sinni þótt það dapur árangur að vera langt frá 30%.

Það er enda varla margt sem skilur orðið á milli Samfylkingar og Vinstri grænna og án þess að ég hafi framkvæmt vísindalega rannsókn hef ég það á tilfinningunni að flestir frambjóðendur beggja flokkanna reki upphaf stjórnmálaáhuga síns til Alþýðubandalagsins.

Klúður síðustu ríkisstjórnar hengur eins og mara yfir báðum flokkunum, og "Sambandsaðild" trekkir ekki að Samfylkingunni. Þar sameinast minnkandi áhugi á aðild og klúður flokksins við framkvæmd aðildarumsóknarinnar.

Það verður fróðlegt að fylgjast með "litlu" flokkunum, Bjartri framtíð, Dögun, Íslensku þjóðfylkingunni, Flokki fólksins o.s.frv.

Bæði hvort að einhver þeirra nái að rjúfa múrinn, sem mér þykir frekar ólíklegt, en ekki ómögulegt, en einnig og ekki síður hvernig þeir hugsanlega geta haft áhrif á kosningarnar, því samanlagt gætu þeir gert nokkuð stóran hluta atkvæða áhrifalausan.

 

 

 


mbl.is Fylgi við Framsókn eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg staðreyndavakt

Það er mikið í tísku að standa svokallaða staðreyndavakt, enda gerir internetið það mun auðveldara en oftast áður.  Eins og stundum er sagt gleymir það engu og hægt er að finna "staðreyndir" á augabragði.

Reyndar finnst mér þær "staðreyndir" sem hér eru taldar upp flestar skipta ákaflega litlu máli og ég leyfi mér að draga í efa að nema hörðustu fylgismönnum finnist svo.

T & C stadreynd mblEn það verður ekki fram hjá því litið, að vissulega er æskilegt að stjórnmálamenn (sem og aðrir) umgangist sannleikann af virðingu.

En það er ein "staðreyndin" sem birtist þarna sem vefst mikið fyrir mér og ég get séð betur en að hún sé röng, þ.e.a.s. ef minni mitt svíkur mig ekki alfarið.

Það er fullyrðingin: "Hið rétta er að Ríki íslams á ræt­ur sín­ar að rekja til hryðju­verka­sam­tak­anna Al-Kaída í Írak, sem sunní-múslim­ar stofnuðu þar í landi árið 2004 eft­ir að Banda­rík­in réðust inn í Írak."

Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að Al Qaeda samtökin hafi verið stofnuð ca. árið T & C stadreynd abc1988, af Osama Bin-Laden. Ég hef meira að segja staðið í þeirri meiningu að þau hafi skipulagt og borið (í það minnsta mesta) ábyrgðina á árásinni á World Trade Center, þann 11.september 2001.

Það er reyndar rétt að taka það fram að mbl.is gerir ekkert annað en að þýða frétt ABC sjónvarpsstöðvarinnar sem heldur því nákvæmlega sama fram.

En þetta breytir því ekki að Trump fer með rangt mál í þessu tilfelli, en það tel ég að skipti í raun ákaflega litlu máli.  Ég hef ekki trú á því að margir áhorfendur hafi litið svo á að Trump væri að halda því fram að Clinton hafi verið að berjast við ISIL frá 18 ára aldri.

En svo að búið sé til nýtt máltæki úr gömlu, hver á að staðreyndatékka staðreyndatékkarana.

Ef til vill er ekki vanþörf þar á.

 


mbl.is Staðhæfingar Trumps hraktar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fljótt á litið virðist sem kappræðurnar hafi engu breytt

Ég horfði ekki á kappræðurnar á milli Donalds og Hillary og reikna ekki með á ég geri það, enda varla það spennandi sjónvarpsefni.

En á ferðalagi mínu um netmiðla þennan morgunin, virðist meginþemað vera að á þeim miðlum sem búast má við að fylgjendur Trump séu fjölmennari, þá vann hann og svo þar sem fylgjendur Clinton venja komur sínar í meira mæli, vann hún.

Fljótt á litið má því draga þá ályktun að kappræðurnar hafi ekki breytt neinu.

Það að Clinton hafi haft betur samkvæmt CNN kemur jafn mikið á óvart og að New York Times hafi lýst yfir stuðningi við Clinton (sem kom reyndar ekki í veg fyrir að mbl.is skrifaði að hefði vakið athygli), enda hefur NYT ávallt stutt frambjóðenda Demókrata, í að minnsta kosti u.þ.b. 60 ár, eða svo. Ég held að síðasti frambjóðandi Repúblikana sem NYT hafi stutt hafi verið Eisenhower.

Svo virðist, ef marka má skoðanakannanir, að baráttan sé nokkuð jöfn, og kosningarnar geti farið á hvorn veginn sem er.

Ég viðurkenni það fúslega að mér þykir það nokkuð merkilegt, ekki síst þegar ég tek tillit til þess að stundum hefur mér þótt hegðun Trump í þá veru að hann óski einskis heitara en að tapa kosningunum.

En ef til vill stendur upp úr í mínum huga hvað báðir kostirnir eru slakir.


mbl.is Clinton hafði betur samkvæmt CNN
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófullnægjandi frétt, ef ekki röng

Að mörgu leyti má segja að forsetakosningar í Eistlandi séu nokkuð flókið fyrirbrigði, og því ef til vill ekki skrýtið að ekki takist að segja frá þeim með réttum hætti.

En það er þó áríðandi, að fréttaskrifarar (og þýðendur) vandi sig eftir fremsta megni og komi hlutunum rétt til skila.

Eistneski forsetiUpp á það vantar nokkuð í þessu tilfelli.

Forsetakosningar í Eistlandi hefjast í þinginu, þar sem sitja 101 þingmaður.

Frambjóðendur verða að fá meðmælendur úr hópi þingmanna, þannig að segja má að stjórnmálaflokkar á þingi hafi það nokkuð í hendi sér hverjir geta boðið sig fram.

Í þinginu þurfa frambjóðendur að fá aukinn meirihluta, 2/3 atkvæða.

Nái enginn frambjóðandi því færist valið í frá þinginu til þess sem nefna mætti "Kjörmannaráð" en þar eiga sæti þingmenn og sveitarstjórnarmenn.

Ekki er þar með sagt að allir þeir frambjóðendur sem voru í kjöri áður, verði það áfram og sömuleiðis geta bæst við nýjir frambjóðendur, en þeir þurfa eftir sem áður að leggja fram stuðning ákveðins fjölda úr "Kjörmannaráðinu" (í báðum tilfellum þarf stuðning frá 21. af þeim sem hafa atkvæðisrétt).

Þannig voru fjórir frambjóðendur í þinginu, Siim Kallas, Mailis Reps, Allar Jõks og Eiki Nestor.  Enginn frambjóðandi hlaut meiri stuðning en 44.5%, sem Kallas hlaut í annari umferð, þannig að eftir þrjár umferðir fluttist valið til "Kjörmannaráðsins".

Þar voru í framboði eins og áður, Siim Kallas, Mailis Reps og Allar Jõks, en Eiki Nestor heltist úr lestinni og viðbættust Marina Kaljurand og Mart Helme.

Það voru því ekki tveir frambjóðendur í forsetakosningum, heldur 5 og í raun í heild sinni 6.

En þeir tveir sem hlutu flest atkvæði í fyrri umferð hjá "Kjósendaráðinu", Siim Kallas og Allar Jõks voru einir í framboði í seinni umferð ("Kjörmannaráðið" fær eingöngu 2. umferðir).

Í "Kjörmannaráðinu" nægir einfaldur meirihluti, en þó er það skýrt að sá meirihluti verður að vera af öllum atkvæðum, en ekki eingöngu þeim sem kjósa ákveðinn einstakling, auð atkvæði og ógild eru því inn í þeirri tölu.

Því fór svo að hvorugur frambjóðendanna sem náði í síðari umferðina, hlaut tilskilinn fjölda atkvæða (168), en Siim Kallas hlaut 138 og Allar Jõks 134, 60 atkvæði voru auð og fjarverandi voru 3.

Því flyst kosningin aftur til þingsins, og verður kosið þann 3. október. Eftir því sem ég hef komist næst, þá hefst sama ferlið upp á nýtt.

Reyndar hafa bæði Allar Jõks og Mart Helme lýst því yfir að þeir verði ekki í framboði og þörf sé á nýjum frambjóðendum. Ég þori ekki að fullyrða um aðra frambjóðendur.

Nú hefur "öldungaráð" eistneska þingsins (skipa forseta, 2. varaforsetum og þingflokksformönnum þeirra 6 flokka sem eiga sæti á þingi) tekið að sér það verkefni að reyna að finna forsetaefni sem sátt gæti verið um.

Þó of snemmt sé að fullyrða nokkuð, þykir líklegt að enginn af fyrrum frambjóðendum verði áfram í kjöri.

All mikið er rætt um að fyrirkomulagið sé ekki nógu gott og sumir tala jafnvel um stjórnarkrárkrísu. En það eru skiptar skoðanir um hvert ætti að stefna. Margir vilja að almenningi verði falið að velja forseta en aðrir einfaldlega breyta því svo að auð atkævði verði ekki talin með hjá "Kjörmannaráðinu".

Það er jafnframt þess virði að geta þess að í skoðanakönnunum á meðal almennings var Marina Kaljurand með lang mest fylgi af frambjóðendunum 5, sem "Kjörmannaráðið" kaus á milli (í fyrri umferð). Hún hafði um og yfir 40% fylgi.

P.S. Ég geri mér grein fyrir því að líklega er áhugi á stjórnmálum og forsetakosningum í Eistlandi ekki útbreiddur á Íslandi, en tel samt þess virði að vekja athygli á því hve fréttaflutningur getur verið takmarkaður, lítt upplýsandi og beinlínis rangur.

Ekki það að þessi stutti pistill sé fullnægjandi eða djúpur, en betra er þó að hafa það sem sannara reynist.

 

 

 


mbl.is Eistar bíða enn nýs forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hvað á að kjósa? Hvernig á að halda áfram? Hvernig á að blása lífi í "dauðar" aðlögunarviðræður?

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru tæki sem getur verið gott að grípa til, en til þess að þær virki sem skyldi þarf að vanda vel til alls undirbúnings, ekki síst til þess að ekki leiki vafi um niðurstöðurnar og hægt sé að túlka þær út og suður.

Þó að ekki hafi margar þjóðaratkvæðagreiðslur verið haldnar á Íslandi, hefur undirbúningur þeirra verið misjafn, og niðurstöður þeirra ekki endilega skýrar.

Gott dæmi um það er þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrá þá sem stjórnlagaráð skipað af Alþingi samdi.

Þar voru aðeins örfáar greinar teknar til atkvæðagreiðslu, og síðan spurt hvort kjósendur vildu að sú stjórnarskrá (eða drög að stjórnarskrá) yrðu lögð til grundvallar nýrri stjórnarskrá.

Verulega loðið orðalag, sem gefur stjórnvöldum tækifæri til að stefna hvert sem er með málið, því grundvöllur getur ekki talist skýrt orð.  Líklega er einhver þekktasta notkun þess í orðinu umræðugrundvöllur.

Því má ef til vill segja að kjósendur hafi samþykkt að áðurnefnd stjórnarskrá, hafi verið samþykkt sem umræðugrundvöllur, en hvað þýðir það?  Um það getur í raun enginn fullyrt, það gefur Alþingi í raun rétt til að breyta frá grundvellinum, eins og því best þykir henta.

En hið loðna orðalag hefur ekki hindrað hina ýmsu "spámenn" í að fullyrða að þjóðin hafi samþykkt nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er þó í raun fjarri sanni. Meirihluti þjóðarinnar greiddi ekki atkvæði, og af þeim sem það þó gerðu, og það er vert að halda því til haga að í hverri slíkri atkvæðagreiðslu eru það þeir sem skipta máli, þá greiddi meirihluti atkvæði með því að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá.

Þegar þetta er haft í huga er líklega flestum ljóst að ef efna á til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort íslendingum hugnist að ganga í Evrópusambandið, eða að halda áfram aðlögunarviðræðum þar að lútandi, skiptir miklu máli að spurt sé með skýrum hætti og með eins litlum vafa eða "túlkunarmöguleikum" og hugsast getur.

Það er hafið yfir vafa að viðræður við "Sambandið" um aðild fela í sér aðlögun íslensks þjóðfélags að lögum og reglum "Sambandsins". Til þess m.a. voru IPA styrkir þeir sem "Sambandið" veitti íslendingum og þegar viðræður hættu, stóðu þeir ekki lengur til boða.

Það er því nauðsynlegt að þeir sem greiði atkvæði segi hug sinn til slíks, og til þess væri spurningin,  "Ert þú samþykk/ur því að Ísland verði aðildaríki Evrópusambandins og aðlagi lög sín og reglugerðir í þeim tilgangi", nokkuð vel fallin.

Það má auðvitað hugsa sér margar mismunandi útgáfur af spurningunni, og jafnvel að um fleiri en eina spurningu yrði að ræða, t.d. um afstöðu kjósenda til framsals á stjórn auðlinda s.s. fiskistofna o.s.frv.

Um það má lengi ræða, en er engu að síður mjög nauðsynlegt að vandað sé til verka, ef til þjóðaratkvæðagreiðslu kæmi.

En það sem er ef til vill merkilegast, er að flestir þeir sem tala um nauðsyn þjóðaratkvæðagreiðslu, tala um á þann veg að eingöngu yrði spurt um hvort að kjósendur vilji halda áfram viðræðum þeim sem hafnar voru 2010 (ef ég man rétt) og steyttu á skeri árið 2011 (ef ég man rétt) og voru endanlega lagðar í "saltpækil" af Samfylkingu og Vinstri grænum í janúar 2013 (ef ég man rétt).

Ég hef alla vegna skilið að slíkt sé vilji Samfylkingar, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Pírata.

En ég get ekki skilið hvernig þessir flokkar hafa hugsað sér að "lífga" við aðlögunarviðræður sem sigldu í strand fyrir u.þ.b. 5 árum. Og ég hef engan af þeim sem leggja til slíka þjóðaratkvæðagreiðslu segja neitt um slíkt, eða að nokkurn fjölmiðill hafi lagt þá grundvallarspurningu fyrir þá.

Það er meira en að segja það að taka upp þráðinn í samningaviðræðum sem þar sem ekkert hefur gerst í meira en 5 ár og ef að Alþingi tekur ekki frekari umræður um aðildarumsókn, þá gilda enn þau samningsmarkmið sem sett voru fram í skýrslu utanríkismálanefndar.

En ef þeim væri breytt, væri ekki rökrétt að segja kjósendum að um sömu viðræður væri að ræða.

En hvernig vilja Samfylking, Viðreisn, Björt framtíð og Píratar taka upp þráðinn?

Hyggjast þau senda Steingrím J. Sigfússon aftur til Brussl til þess að krefjast rýniskýrslu í sjávarútvegi? Eða telja þau að t.d. tvíeyki eins og Birgitta Jónsdóttir og Benedikt Jóhannesson næði betri árangri?

Enginn virðist vilja horfast í augu við þann veruleika að aðlögunarviðræðurnar sigldu í strand, og Evrópusambandið neitaði að opna á viðræður um mikilvægustu hagsmunamál Íslendinga.

En "Sambandssinnarnir" neita að láta slíkt stöðva sig í því að þeirri blekkingu að nauðsynlegt sé að greiða atkvæði um "viðræður".

Þeir reyna að telja kjósendum trú um að ekkert þurfi að gera nema að fljúga út til Brussel og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið og það sé einmitt það sem þeir vilji þjóðaratkvæðagreiðslu um.

Enginn nefnir hvernig hann vilji blása lífi í "dauðar" aðlögunarviðræður.

Enginn fjölmiðill spyr þeirrar spurningar.

Kjósendur láta blekkjast því hver vill í raun vera á móti "viðræðum"? Er ekki gott að þjóðir, þjóðabandalög og raunar hver sem er ræði saman?  Er einhver ástæða til að vera á móti því?

Staðreyndin er sú að viðræðurnar sigldu í strand, líklega ekki hvað síst vegna afstöðu Íslendinga í sjávarútvegsmálum.

Og þær verða að öllum líkindum jafn strandaðar nema Íslendingar vilji gefa eftir í þeim málaflokki.

Ef til vill væri það rétta spurningin fyrir þjóðaratkvæði.

 


mbl.is Verður kosið um Evrópusambandið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíklegt að nokkuð verði aðhafst

Persónulega tel ég engar líkur á því að nokkuð frekar verði aðhafst í þessu máli af hálfu Alþingis eða hins opinbera.

Sem er synd, því mikil þörf er á að farið verði yfir málið og "síðari einkavæðing bankanna" krufin til mergjar. Sama gildir um samstarf Íslands og IMF (Alþjóða gjaldeyrissjóðsins).

Ekki til að "hengja neinn upp", heldur til að læra af, bæði því sem vel var gert og því sem fór miður.

Það er margt sem bendir til þess að þessi mál séu á ýmsan hátt af svipuðum meiði og IceSave samningurinn fyrsti. Það er að segja að þeir sem stóðu að málinu af Íslands hálfu hafi hreinlega ekki verið starfinu vaxnir, ekki haft það sem til þurfti á móti hágæða vönum erlendum samningamönnum.

Til samanburðar má nefna að nú telja Bretar sig ekki hafa á að skipa nægilega góðum samningamönnum í viðskiptasamningum á móti Evrópusambandinu vegna "Brexit" (enda ekki getað gert sjálfstæða viðskiptasamninga í yfir 40 ár, vegna veru sinnar í því sama "Sambandi"), þeir leita því líklega til Ástralíu, Nýja-Sjálands og Kanada og fá "lánaða" þaðan samningamenn.

Þó að Bretar séu meira en 150sinnum fjölmennari en Íslendingar, eru þeir ekki yfir það hafnir að ráða sér samningamenn erlendis frá.

En Steingrímur sem "varla át eða svaf", og þeir sem voru í kringum hann gerðu að sjálfsögðu engin mistök. Um það virðast flestir alþingismenn og ótrúlega margir Íslendingar reiðubúnir að þjappa sér.

Vek að lokum athygli á ágætum pistli Marinós Njálssonar um þetta mál, góð lesning og gott að lesa athugasemdirnar sömuleiðis.

 

 

 


mbl.is Vigdís biður stjórnskipunarnefnd um rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frekari rannsóknar er þörf - allir ættu að geta sammælst um það, eða hvað?

Skýrsla sem hefur verið lögð fram í nafni meirihluta fjárlaganefndar hefur vakið verðskuldaða athygli. Líklega verður þó meirihluti athyglinnar að teljast neikvæður, en það breytir því ekki að skýrslan hefur vakið athygli á nauðsynlegu máli.

Ég hef ekki haft tíma nema til að renna í fljótheitum yfir skýrsluna. Fljótt á litið virðist mér að sú gagnrýni að ekki sé um rannsóknarskýrslu að ræða eigi við rök að styðjast.  Mun nær er að tala um samantekt og jafnvel endurtekningu á því sem hefur komið fra áður.

Það breytir því ekki að þær spurningar sem skýrslan vekur, hefur í fæstum tilfellum verið svarað með viðunandi hætti.

Það er því fyllsta ástæða til þess að Alþingi ákveði að ýtarleg rannsókn fari fram og góðri rannsóknarskýrslu verði skilað.

Nú þegar hefur ítarlegri skýrslu um atburðarásina fyrir bankahrun verið skilað, en það er ekki síður ástæða til þess að rannsóknarskýrsla verði gerð um atburðarásina eftir hrun.

Ekki til þess að efna til "sýndarréttarhalda" í þeim stíl sem stjórn Jóhönnu og Steingríms (með stuðningi nokkurra Framsóknarþingmanna og þáverandi þingmanna Hreyfingarinnar (m.a. núverandi þingmanns Pírata)), efndi til yfir Geir Haarde, heldur til þess að læra af ferlinu og gera komandi kynslóðir betur undir það búnar að takast á við svipuð vandamál, ef til þess kemur.

Því er nauðsynlegt að kryfja ferlið og fara yfir það sem vel var gert og svo hitt sem betur hefði mátt fara.

Sömuleiðis væri æskilegt að gera skýrslu um samskpti Ísland og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.  Hvernig þeim var háttað, hver var ávinningur Íslands, í hverju fólst hann, hver voru neikvæðu áhrifin, hver var kostnaðurinn af aðstoð sjóðsins o.s.frv.

Við eigum að vera óhrædd við að gera upp fortíðina og læra af því sem þá var gert. Bæði hinu góðu og hinu sem verr var staðið að.

Því hygg ég að flestir ættu að geta sammælst um að koma á fót rannsóknarnefnd um árin eftir bankahrun og aðgerðir hins opinbera.

En það hefur líka vakið athygli mína að margir vitna til skýrslu sem Brynjar Níelson vann fyrir fáum árum, og segja að hún sanni að engins ástæða sé fyrir skýrslu meirihluta fjárlaganefndar, eða frekari rannsókn.

Það er að mínu mati hrein rangfærsla, enda segir í skýrslu Brynjars:

 

Nauðsynlegt og eðlilegt er að skoða allt ferlið við endurreisn bankakerfisins og aðgerðir við endurskipulagningu skulda fyrirtækja og einstaklinga í því skyni að styrkja lagaumgjörð, ekki síst heimildir og aðferðir við eignarnám og mat á eignum. Einnig í því skyni að skýra formreglur stjórnsýslunnar og setja skýrari reglur um hlutverk hvers stjórnvalds um sig við aðstæður sem þessar til þess að draga úr tilviljanakenndum ákvörðunum sem óljóst er á hvers sviði eru. Í aðstæðum sem þessum er mikilvægt að skýrt sé hvert er hlutverk hvers og eins og þá er nauðsynlegt að lagarammi sé eins skýr og frekast er unnt. Þá er ekki síður mikilvægt að fram fari endurskoðun á 12. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem snýr að endurskipulagningu, slitum og samruna fjármálafyrirtækja, enda gífurlegir hagsmunir alls samfélagsins í húfi að vel takist til ef aðstæður sem þessar koma upp aftur.

Einnig segir í skýrslunni (örlítið framar):

 Jafnframt þyrfti að mati skýrsluhöfundar að skoða betur aðgerðir stjórnvalda í tengslum við aðstoð við minni fjármálafyrirtæki eins og Saga Capital, Verðbréfastofuna og Askar Capital og á hvaða grunni veitt var ríkisábyrgð á skuldabréfi SPRON og Sparisjóðabankans til slitabús Kaupþings.

Það er því ærin ástæða til þess að hvetja Alþingi til þess að efna til frekari rannsókna á ákvörðunum hins opinbera á þessu tímabili.

Það er vert að hafa í huga þegar talað er um að eingöngu sé um endurtekningu á ásökunum Víglundar Þorsteinssonar sé að ræða, að þegar Björn Valur Gíslason og fyrrnefndur Víglundur ræddu þessi mál, eftir að Sigmundur Davíð hafði hvatt til að málið yrði rannsakað frekar, þá sagði Björn Valur í sjónvarpi að ef að ríkisstjórnin efndi ekki til rannsóknar á málinu, myndi Vinstri græn krefjast þess (þetta segir Björn Valur þegar u.þ.b. 1 mínuta er eftir af viðtalinu).

Það getur því varla verið eftir nokkru að bíða, það er nauðsynlegt að Alþingi komi á fót rannsóknarnefnd til þess að fjalla um "seinni einkavæðingu bankanna" og jafnframt um aðgerðir stjórnvald eftir hrun. 

Æskilegt að mínu mati væri að einnig væri skipuð nefnd sem fjallaði um samstarf Íslands og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Hvað hefur komið í veg fyrir að Björn Valur og Vinstri græn hafi krafist frekari rannsóknar á málinu ætla ég ekki að fullyrða um.

En ég hvet til þess að til slíkrar rannsóknar verði efnt. Það er allt sem hvetur til þess að málið verði krufið til mergjar.

Staðreynd eins og fundargerðir hafi ekki verið haldnar, gerir slíkt enn mikilvægara.

Við skulum ekki gleyma því að við erum að fjalla um sömu ríkisstjórn og vildi að Alþingi samþykkti IceSave I samninginn án þess að þingmenn fengju að sjá hann.

Það hvetur því allt til frekari rannsóknar.

Því sameinast þingmenn ekki um það?

P.S. Ég hef áður bloggað um þetta efni, það blogg má lesa hér.

 


mbl.is Ætlar ekki að mæta í „sýndarréttarhöld“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sambandið" sjálft skiptir Íslendinga ákaflega litlu máli

Hvort að Evrópusambandinu gengur vel eða illa, skiptir Íslendinga í raun littlu máli. Það er enda langt í frá að "Sambandið" sé ein heild, enn að minnsta kosti.

Enda gengur sumum aðildarlöndum þess vel, en öðrum illa. Æ fleiri eru á þeirri skoðun að það sé ekki síst vegna sameiginlegrar myntar margra landa "Sambandsins" sem ýmsum þeirra vegnar svo miður.

En heilt yfir er það Íslendingum í hag að flestum þjóðum gangi vel.

Það væri gott fyrir Íslendinga að Portúgölum og Spánverjum vegnaði betur og keyptu meira af íslenskum vörum.

Það er mikilvægt fyrir Íslendinga að Bretum gangi allt í haginn, enda fáar ef nokkur þjóð mikilvægari Íslendingum viðskiptalega séð. Þess vegna ættu allir Ísleningar að óska þess að útganga þeirra úr "Sambandinu" takist vel, og samningaviðræðurnar stjórnist af sanngirni og sameiginlegum hagsmunum en ekki hefnigirni.

Það væri óskandi fyrir Íslendinga að Nígería rétti úr kútnum, svo hægt sé að selja þangað meira af sjávarafurðum.

Þannig má lengi telja. Og ekki bara fyrir Íslendinga, heldur heimsbyggðina alla.

Velgengni annara smitar út frá sér og viðskipti almennt séð auka velmegun og velmegun eykur viðskipti.

Til lengri tíma litið er líklegt að "Sambandslöndin" verði æ minna mikilvæg fyrir Ísland og er það líklega vel. Ekki sísta eftir að Bretland mun segja skilið við "Sambandið".

Aðrir heimshlutar vaxa hraðar og hlutfall þeirra af heimsviðskiptum aukast.

En að sjálfsögðu viljum við að öllum gangi vel.

 

 


mbl.is Mikilvægt að ESB gangi vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í raun ótrúlegt að ráða fyrrverandi stjórnmálamann til þess að leikstýra Skaupinu

Persónulega hef ég mikið álít á Jóni Gnarr, það er að segja sem grín og húmorista, en síður sem stjórnmálamanni. Ég hef skemmt mér vel yfir ótal mörgu sem hann hefur komið að á grínsviðinu, það að liggur nærri að ég horfi á Vaktaseríurnar einu sinni á ári (sérstaklega ef ég verð veikur og held til í rúminu einn dag eða fleiri).

Það verður þó ekki frá honum tekið að hann náði frábærum árangri í kosningabaráttu, þó eðli málsins samkvæmt séu líklega skiptar skoðanir um hve vel honum tókst upp sem stjórnmálamanni.

En ég get ekki að því gert að mér finnst það virka nokkuð tvímælis af ríkisstofnun sem lögum samkvæmt þarf að feta eftir bestu getu þröngan stíg "hlutleysisins" að ráða fyrrverandi stjórnmálamann til að leikstýra Áramótaskaupinu.

Það felur einhvern veginn ekki í sér hlutleysi að mínu mati.

En hver veit, ef til vill leitar RUV til Davíðs Oddssonar næst. Hann á einnig glæstan feril í gríninu að baki, þó að vissulega sé lengra síðana að Matthildar þættirnir þóttu hin mesta snilld.

Ekki er að efa að um slíka ráðningu myndi ríkja almenn sátt í þjóðfélaginu.

 


mbl.is Jón Gnarr leikstýrir Skaupinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópusambandið varla nefnt á nafn, frekar en snara í hengds manns húsi Viðreisnar

Það er í ákaflega eftirtektarvert hvernig flestir þeir lesa hefur mátt um í fréttum að hafi gengið til liðs við Viðreisn, eða hyggi á framboð á vegum flokksins, forðast að nefna Evrópusambandið á nafn.

Þess í stað kjósa þeir að tala um "vestræna samvinnu", eða "alþjóðlega samvinnu".

En Evrópusambandið er í raun hvorugt. Þó að flest ríki þess geti í raun talist vestræn (um það má þó líklega deila), standa mörg vestræn ríki utan þess.

Og Evrópusambandið er ekki alþjóðleg samvinna, heldur samband u.þ.b. helmings ríkja Evrópu.

Ísland er hins vegar aðili að flestum þeim vestrænu og alþjóðlegu samböndum og "samstörfum" sem völ er á.

Sameinuðu þjóðirnar, NATO, Evrópuráðið, ÖSE, Alþjóðabankinn, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, og fleiri og fleiri.

Hvað skyldi það vera sem Viðreisn er að stefna að í "vestrænni" eða "alþjóðlegri" samvinnu sem þeim hefur ekki boðist í öðrum flokkum?

Svari hver fyrir sig hvort þetta sé hin hreinskilnu, opnu og frjálslyndu stjórnmál sem þeir vilja sjá á Alþingi.

 

 


mbl.is Þorgerður og Þorsteinn í Viðreisn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðskrum eða fáfræði?

Því miður er það allt of algengt í pólítískri umræðu að upphrópunum eins og hér má lesa sé slengt fram:  Hvar eru þessar lækkanir?

Ef aðeins veruleikinn væri svona einfaldur.

Vissulega hefur núverandi ríkisstjórn unnið frábært starf í því að lækka ýmsa toll og gjöld, þó betur megi vissulega gera og sömuleiðis hefur íslenskur efnahagur risið hratt með tilheyrandi styrkingu krónunnar.

En eru þetta einu þættirnir í verðmyndun á innfluttum vörum?

Ég held að flestir geti svarað því að svo sé ekki.

Hvað skyldi til dæmis launakostnaður íslenskra fyrirtækja hafa aukist á sama tíma og gengi krónunnar hefur styrkst og gjöld hafa verið lækkuð?

Bæði í gegnum kjarasamninga og svo eins vegna launaskriðs sem eðlilega verður þegar efnahagslífið er þróttmikið og atvinnuleysi næsta lítið.

Skyldi húsnæðiskostnaður íslenskra fyrirtækja hafa aukist á sama tíma?

Er það ekki líklega vegna styrkingar gengisins og niðurfellingar tolla og gjalda sem að verðbólgan sem svo margir áttu von á hefur ekki enn látið á sér kræla?

Það er hins vegar rétt að aukin samkeppni er besta leiðin til að skila betra vöruverði til neytenda. Það má færa ýmis rök fyrir því að hún mætti vera meiri á Íslandi.

En hafa íslenskir stjórnmálamenn staðið vaktina í því að auðvelda og auka samkeppni í landinu? Gera inngöngu á markaðinn auðveldari, dregið úr bákninu og gjöldum til hins opinbera?

Það er heldur ekki ástæða til þess að líta fram hjá því að þegar uppgangur er í þjóðfélaginu og kaupmáttur og eftirspurn eykst, minnkar hvati til verðlækkana. Þannig virkar lögmál framboðs og eftirspurnar.

En það má heldur ekki líta fram hjá því að annar kostnaður getur sífellt verið að aukast, þó að gengi styrkist og gjöld lækki.

Það verður hins vegar ekki hjá því litið að líklega hefur niðurfelling tolla og gjalda ekki getað komið á betri tíma, en þegar annar kostnaður svo sem laun hafa hækkað verulega.

Þannig hefur almenningur fengið umtalsverða kjarabót, í formi aukins kaupmáttar, og ekki síður í því að verbólgan hefur verið með lægsta móti sem skilar sér einnig til almennings í auknum stöðugleika lánaafborgana.

Slíkar fullyrðingar eins og Karl Garðarson slengir hér fram, lykta af lýðskrumi í aðdraganda kosninga, því ég hef enga trú á því að Karl geri sér ekki grein fyrir því að verðmyndun er mun flóknari en hann gefur í skyn með því að auglýsa eftir verðlækkunum.

 

 


mbl.is „Hvar eru þessar lækkanir?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratar skulda skýringar

Það er eðlilegt að taka undir áhyggjur Árna Páls Árnasonar hvað varðar framkvæmd á prófkjörum hjá Pírötum.

Ekki síst ef rétt er eftir einum af trúnaðarmönnum þeirra haft hjá RÚV:

…hann gekkst við því meðal annars að hafa fengið, eins og hann orðaði það, nokkra félaga, 20-30 manns, til að skrá sig í flokkinn til þess að kjósa sig og samkvæmt þeim tölfræðigögnum sem voru birt um kosninguna, þá kusu 18 af þessum eingöngu hann og engan annan í prófkjörinu en fólki var frjálst að raða öllum sem að voru í framboði á kjörseðil hjá sér.

Það verður seint talin mikil "smalamennska" að hafa fengið ríflega 20 einstaklinga til að ganga í flokk til þess að kjósa sig.

En það getur ekki talist alvarlegi hluturinn.

Ef hins vegar einhver innan Pírata telur sig geta fullyrt um hvernig þeir einstaklingar sem taldir eru á meðal þeirra "smöluðu" hafa kosið, eru prófkjör og kosningar innan þess flokks komnar á hættulegt stig.

Við teljum okkur vita að innan Pírata starfi margir einstaklingar sem kunna fótum sínum vel forráð á hinum "stafrænu slóðum", en að þeir noti þá þekkingu sína til að kortleggja hvernig einstaklingar nota atkvæðisrétt sinn er hrollvekjandi tilhugsun og setur flokkinn allan í vægast sagt slæma stöðu, ef rétt er.

Píratar skulda almenningi og ekki síður þeim sem tekið hafa þátt í prófkjörum þeirra útskýringu á þessum málum.

Ég er hins vegar sammála því að enn sem komið er að minnsta kosti, ef svo verður nokkurn tíma, er ekki tímabært að kosningar fari fram á netinu.

Til þess eru hætturnar of margar og öll rök um að slíkt auki þátttöku, hafa að mínu mati reynst hjómið eitt.

Í raun virðast prófkjör Pírata og þátttaka í þeim styðja slíkar skoðanir.

Persónulega tel ég að aðeins áhugaverð stjórnmál og stjórnmálamenn megni að auka þátttöku.

Að mörgu leyti má líklega segja að prófkjör á Íslandi undanfarnar vikur styðji þá skoðun mína.

 

 


mbl.is Rétta fólkið kosið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin og illa skrifuð frétt

Því miður er allt of mikið um fréttir álika þessari, sem þessi færsla er hengd við, í íslenskum fjölmiðlum.

Ég get ekki séð annað en að megintexti hennar sé beinlínis rangur, og í þokkabót skína fordómar þess sem hana skrifar í gegnum textann.

Það er ekki að undra að enginn skuli vera skrifaður fyrir fréttinni.

 

Bak­slag fyr­ir Merkel

Þýski þjóðern­is­flokk­ur­inn Ann­ar kost­ur fyr­ir Þýska­land eða Alternativ für Deutsch­land (AfD) náði öðru sæti í fylk­is­kosn­ing­um í Mecklen­burg-Vorpomm­ern í norðaust­ur­hluta Þýska­lands og fór þar með upp fyr­ir Kristi­lega demó­krata, flokk Ang­elu Merkel kansl­ara.

Flokk­ur­inn legg­ur áherslu á andúð á flótta­mönn­um og hef­ur gagn­rýnt frjáls­lynda stefnu Merkel í mál­efn­um flótta­fólks.

Í kosn­ing­un­um hlaut AfD 21% kosn­ingu en þetta er í fyrsta skiptið sem flokk­ur­inn býður fram til fylk­isþings í Mecklen­burg-Vorpomm­ern. Kristi­leg­ir demó­krat­ar fengu 19%, en sósí­al­demó­krata­flokk­ur­inn SDP fékk sem áður flest at­kvæði og var með 30% fylgi.

Hvergi annars staðar en á mbl.is, hef ég séð fullyrt um úrslit kosninganna í Meclenburg-Vorpommern, heldur hefur alls staðar annars staðar verið talað um útgönguspár.

Þannig hljóðar frétt BBC um sömu kosningar, en hún birtist á vef þess fyrir rúmlega 20 mínútum (þegar þessi færsla er skrifuð):

Angela Merkel's ruling CDU party has been beaten into third place by an anti-immigrant and anti-Islam party in elections in a north-eastern German state, TV exit polls suggest.

The Alternative fuer Deutschland (AfD) party took 21% of the vote behind the centre-left SPD's 30.5%.

The German chancellor's CDU was supported by only 19% of those who voted, according to the exit polls.

The vote was seen as a key test before German parliamentary elections in 2017.

Before the vote in Mecklenburg-West Pomerania, all of Germany's other parties ruled out forming a governing coalition with the AfD.

However, the party's strong showing could weaken Mrs Merkel ahead of the national elections next year.

Mecklenburg-West Pomerania, in the former East Germany, is where the chancellor's own constituency is located.

Under her leadership, Germany has been taking in large numbers of refugees and migrants - 1.1 million last year - and anti-immigrant feeling has increased.

The AfD, initially an anti-euro party, has become the party of choice for voters dismayed by Mrs Merkel's policy.

The CDU has been the junior coalition partner in Mecklenburg-West Pomerania since 2006. Its 19% in the election is its worst ever result in the state, German broadcasters said.

Ég hygg að flestir geti séð að himinn og haf er á milli fréttaskrifanna.

Og andstaða gegn óheftum straumi innflytjenda og barátta gegn Islam er í mínum skilningi ekki það sama og "andúð á innflytjendum".  Þar lætur fréttaskrifari sín persónulegu sjónarmið sína í gegn (eða þá að verið er að þýða úr hlutdrægum fréttamiðlum), eða það þykir mér alla vegna líklegra en að hann hafi átt í erfiðleikum með þýðingarvinnuna.

Slík vinnubrögð eru því miður allt of algeng í íslenskum fjölmiðlum (og víðar) en geta ekki talist til fyrirmyndar eða eftirbreytni.

Það breytir engu um hvað okkur kann að finnast um AfD, eða stefnu þess (sem hefur að mínu persónulega mati leitað út í hróann, gagnstætt því sem var við stofnun flokksins), þá á flokkurinn rétt á því sem allir aðrir að fréttir um hann litist ekki af skoðunum þess sem ritar, eins og mögulegt er.

Það á ekki að vera erfitt að gera betur en þetta.

P.S. Það breytir því ekki að ef þetta verða niðurstöðurnar, sem mér þykir ekki ólíklegt að verði í svipuðum dúr, þá er það mikið áfall fyrir Merkel og flokk hennar, ekki síst með tilliti til stefnu hennar í málefnum flóttamanna.

P.S.S. Ég hygg að flestir geti myndað sér skoðun á því hvort að líklegt sé að úrslit kosninganna liggi fyrir, þegar skoðuð er tímasetning fréttar mbl.is.

Hér er svo að lokum texti frá AFP, sem mbl.is fréttin er líklega unnin upp úr, en þar er einnig talað um útgönguspá:

Germany's anti-migrant populists made a strong showing at Sunday's state polls, scoring ahead of Chancellor Angela Merkel's party as voters punish the German leader over her liberal refugee policy.

The xenophobic Alternative for Germany (AfD) obtained around 21 percent in its first bid for seats in the regional parliament of Mecklenburg-Western Vorpommern, according to exit polls shortly after voting ended.

Merkel's Christian Democratic Union, meanwhile, garnered just 19 percent in its worst ever showing in the north-eastern state, while the Social Democrats maintained top place with around 30 percent.

Calling it a "proud result," Leif-Erik Holm, AfD's lead candidate said: "And the cream of the cake is that we have left Merkel's CDU behind us... maybe that is the beginning of the end of Merkel's time as chancellor."


Although the former Communist state is Germany's poorest and least populous, it carries a symbolic meaning as it is home to Merkel's constituency Stralsund.

The polls are also held exactly a year after the German leader made the momentous decision to let in tens of thousands of Syrian and other migrants marooned in eastern European countries.

Although she won praise at first, the optimism has given way to fears over how Europe's biggest economy will manage to integrate the million people who arrived last year alone.

Her decision has left her increasingly isolated in Europe, and exposed her to heavy criticism at home, including from her own conservative allies.

- 'No money for us' -

In the sprawling farming and coastal state of Mecklenburg-Western Pomerania, where economic regeneration and jobs used to top residents' concerns, the issue of refugees and integration has become the deciding factor for one in two voters.

 

"I am voting AfD. The main reason is the question over asylum-seekers," said a pensioner and former teacher who declined to be named.

"A million refugees have come here. There is money for them, but no money to bring pensions in the east to the same levels as those of the west," he said, referring to the lower retirement payments that residents of former Communist states receive compared to those in the west.

Compared to other parts of Germany, the northeastern state hosts just a small proportion of migrants under a quota system based on states' income and population -- having taken in 25,000 asylum seekers last year.

Most of them have already decided to abandon the state, preferring to head "where there are jobs, people and shops," said Frieder Weinhold, CDU candidate.

But he acknowledged that the "migration policy has sparked a feeling of insecurity among the people."

After a series of attacks by asylum-seekers in July -- including two claimed by the Islamic State organisation -- the mood has also darkened.

If the results were confirmed, the AfD, which was founded in 2013, would enter yet another regional parliament.

The party is now represented on the opposition benches of half of Germany's 16 regional parliaments.

- 'No solutions' -

Leading members of the party have sparked outrage over insulting remarks, including one disparaging footballer Jerome Boateng, of mixed German and Ghanian descent, as the neighbour no German wants.

Days ahead of Sunday's vote, Merkel urged the population to reject AfD.

"The more the people who go to vote, the less the percentage won by some parties that, in my view, have no solution for problems and which are built mainly around a protest -- often with hate," she said.

The chancellor, who is attending the G20 summit in the Chinese city of Hangzhou, did not vote in the polls as her main residence is in Berlin.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Bakslag fyrir Merkel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband